Storytelling Lab for Young Adults

Menningarsamvinna íslenskra og pólskra unglinga

Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO heldur utan um samstarfsverkefnið Storytelling Lab for Young Adults veturinn 2015 – 2016. Aðrir samstarfsaðilar eru Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar, Landakotsskóli og TAK (Towarzystwo Aktiwnej Komunikacji) í Wroclaw í Póllandi. Verkefnið felst í samvinnu 9. bekkinga í Landakotsskóla við jafnaldra sína í Wroclaw – netsamskiptum, heimsóknum, vinnusmiðjum og listsköpun á sviði ljósmyndunar, bókmennta og annarra listgreina.

Afrakstur samstarfsins verður sýndur hér á landi á sýningu á Kjarvalsstöðum á Barnamenningarhátíð í Reykjavík í apríl 2016.

Verkefninu er ætlað að efla þátttakendur á sviði listköpunar og hvetja til samskipta á milli þessara tveggja landa. Nemendur öðlast þekkingu á menningu í borgunum tveimur með því að skiptast á heimsóknum og vinna saman að menningartengdum verkefnum, bæði með rafrænum samskiptum og þegar þau hittast. Þau hitta rithöfunda, ljósmyndara og aðra listamenn og vinna undir handleiðslu þeirra auk þess sem þau heimsækja söfn og menningarstofnanir.

Íslenski hópurinn fór til Póllands í október 2015 og tók þátt í vinnusmiðjum og menningarkynningu í Wroclaw. Pólski hópurinn kom svo til Reykjavíkur í nóvember og dvaldi hér í fimm daga, frá 10. – 15. nóvember. Meðan á dvölinni stóð unnu krakkarnir allir saman með ljósmyndaranum Wiolu Ujazdowsku, myndlistarmanninum og rithöfundinum Haraldi Jónssyni og kennurum Landakotsskóla. Louise Harris er umsjónarmaður verkefnisins fyrir hönd skólans. Þau heimsóttu Borgarbókasafn og fóru í bókmenntagöngu með þeim Úlfhildi Dagsdóttur og Guttormi Þorsteinssyni, litu á bakvið tjöldin í Hörpu, fengu leiðsögn og fræðslu um Ljósmyndasafn Reykjavíkur, Árbæjarsafn og Viðey þar sem þau tóku einnig þátt í heils dags vinnubúðum. Hópurinn fór á Skrekk, tók þátt í menningarmóti, hitti rithöfundinn Andra Snæ Magnason í Toppstöðinni, fræddist um sögu Reykjavíkur með Guðna Th. Jóhannessyni og heimsótti Hitt húsið. Að auki fór pólski hópurinn í skoðunarferð utan Reykjavíkur með pólskum fararstjóra sem býr á Íslandi, Karolinu Bokuslawska.

Hóparnir héldu áfram samskiptum í gegnum netið á vorönn og undirbjuggu þátttöku í Barnamenningarhátíð í Reykjavík og sýningu í Wroclaw.

Sjá pólska síðu verkefnisins

Sjá fleiri myndir frá verkefninu á vef Landakotsskóla

 

Verkefnið er styrkt af menningarsjóði fyrir Ísland, Liechtenstein og Noreg sem og af pólskum menningarsjóðum.

EEA+Grants+-+JPG           MKiDN_logoeng        logo-en-cmyk        acs_logo_print_cmyk