Tímaás bókmenntanna

Close window

Um bókmenntasögu Íslendinga

Á tímaás bókmenntanna er gefið stutt yfirlit yfir bókmenntir og bókmenntatengda viðburði í sögu íslensku þjóðarinnar. Mjög er stiklað á stóru og er yfirlitið hvergi nærri tæmandi, enda er því fyrst og fremst ætlað að vekja athygli á þessari samfelldu og fjölbreytilegu sögu og virka sem hvatning til að kanna hana nánar. Athugið að tímaásinn er enn í vinnslu.

Ísland á sér langa og sterka bókmenntahefð og samfellda bókmenntasögu á þjóðtungu sem fáir tala. Það er athyglisvert að hér var skrifað á þjóðtungu frá upphafi ritaldar, sem vafalaust á stærstan þátt í því að tungumálið varðveittist eins vel og raun ber vitni. Það er ekki ofsagt að orðlist myndi sterkasta þráðinn í menningarsögu þjóðarinnar, enda elsta listgreinin hér á landi.  Þessi mikla áhersla á orðsins list hefur fylgt þjóðinni frá upphafi og er einn af hornsteinunum í sjálfsmynd og sögu hennar, ekki síst vegna þeirrar stöðu sem miðaldabókmenntirnar hafa, bæði innan lands og utan.

Íslendingar skilgreina sig því sem bókmenntaþjóð, þótt sumum þyki hún þurfa að taka sig á til að geta staðið með sóma undir þeim titli í dag. Hvað sem um það má segja er ljóst að bókmenntirnar skipa enn stóran sess, útgáfa er með því mesta sem gerist í heiminum og fjöldi rithöfunda er eftirtektarverður í svo fámennu landi. Bókmenntaviðburðir eru fjölmargir og fastar hátíðir einnig, Á allra síðustu árum hefur áhugi á íslenskum bókmenntum farið vaxandi erlendis í kjölfar öflugra kynningarstarfs og íslenskir rithöfundar gera nú víðreist og hafa hlotið alþjóðlegar viðurkenningar.

Þýðingar á verkum erlendra höfunda eru mikilvægur hluti af íslenskum bókmenntum. Þær hafa frá upphafi auðgað íslenskt menningarlíf og tungumál og spilað stórt hlutverk í menningaruppeldi þjóðarinnar. Það skiptir sköpum fyrir svo fámenna þjóð og lítið málsvæði að mynda samræðu við önnur lönd og leika þýðingar þar stórt hlutverk.

Við gerð hluta tímaássins var haft samstarf við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, sem veitti Bókmenntaborginni góðfúslega leyfi til að styðjast við tímaás á vefnum Handritin heima. Höfundar þeirrar vefsíðu eru Laufey Guðnadóttir og Soffía Guðný Guðmundsdóttir.

Tímaásinn er enn í vinnslu eins og sagt var hér að ofan og tökum við hvers konar ábendingum fagnandi. Þær má senda á netfangið bokmenntaborgin@reykjavik.is