Undirskriftasöfnun vegna fangelsunar Asli Erdogan

Asli Erdogan

Bókmenntaborgin Kraká styður Asli Erdogan

Systurborg Reykjavíkur í samstarfsneti Skapandi borga UNESCO, Bókmenntaborgin Kraká í Póllandi, hefur hrundið af stað undirskriftasöfnun vegna fangelsunar tyrkneska rithöfundarins og baráttukonunnar Asli Erdogan. Hún hefur um áratugaskeið barist fyrir réttindum kvenna og kúrdíska minnihlutans í Tyrklandi. Erdogan er skáldsagna- og smásagnahöfundur og hafa verk hennar verið verðlaunuð og þýdd á um fimmtán tungumál. Hún hefur vakið athygli fyrir skrifa sín bæði heima fyrir og erlendis og hefur verið útnefnd einn af fimmtíu athyglisverðustu höfundum framtíðarinnar af franska tímaritinu Lire.

Erdogan var gestahöfundur í Kraká á vegum ICORN samtakanna (International Cities of Refuge) árið 2015, sem Reykjavík á einnig aðild að. Hún hafði snúið aftur til Tyrklands og var fangelsuð nú í júlí ásamt félögum sínum sem tengjast blaðinu Özgür Gündem, þar sem hún starfaði sem dálkahöfundur. Erdogan á yfir höfði sér ákærur um “aðild að hryðjuverkasamtökum” og “að grafa undan þjóðareiningu”.

Alþjóðasamtök PEN hafa skorað á tyrknesk stjórnvöld að leysa blaðamenn og rithöfunda úr haldi um leið og samtökin minna á réttinn til tjáningarfrelsis. PEN í Englandi tekur undir og lýsir yfir sérstökum áhyggjum af máli Erdogan.

Asli Erdogan hefur sent frá sér sjö skáldsögur, þá fyrstu árið 1994 sem ber titilinn The Shell Man í enskri þýðingu. Sú næsta var The City in Cremson Cloak en með henni vakti Erdogan einnig athygli utan heimalandsins. Nýjasta skáldsaga hennar er The Stone Building sem hlaut hin virtu bókmenntaverðlaun Sait Faik í Tyrklandi árið 2010.

Frekari upplýsingar um Asli Erdogan:

Smásagan The Prisoner eftir Asli Erdogan í enskri þýðingu Deniz Perin

Meira um mál Erdogan á vef PEN á Englandi.

Hér má taka þátt í undirskriftasöfnuninni hjá Bókmenntaborginni Kraká.

Um mál Erdogan á vef PEN International.