Allir lesa – landsleikur í lestri

Friday, 27. January 2017 - Sunday, 19. February 2017, Allan daginn
Hvar sem er, Alls staðar Landið og miðin

Allirlesa2

Allir lesa, landsleikur í lestri er nú haldinn í þriðja sinn og hefst á föstudaginn 27. janúar, og stendur út þorra eða til konudagsins 19. febrúar. Allir lesa er leikur í lestri og geta allir sem vilja tekið þátt. Það eina sem fólk þarf að gera er að vera skráður inn á allirlesa.is, mynda lið og byrja að lesa. Leikurinn er hvatning til að lesa meira og er keppt í því hver les mest.

Hægt er að keppa sem einstaklingur eða í liði. Liðakeppnin skiptist í tvo flokka: vinnustaðaflokk og opinn flokk og er keppnin tilvalin leið til að skemmta sér við lestur um leið og keppt er til sigurs. Hægt er að mynda lið á vinnustaðnum, með fjölskyldunni, leshringnum eða hverjum sem lesa vill.

Auðvelt er að skrá sig til leiks og hægt að skrá sig til keppni allt tímabilið. Allar bækur eru gjaldgengar, óháð efni og tungumáli og er það sá tími sem varið er í lestur sem skiptir máli. Aðalatriðið er að skemmta sér við lesturinn, hvort sem matreiðslubækur, skáldsögur, skýrslur eða ljóðabálkar verða fyrir valinu. Lesum til sigurs!

Aðstandendur Allir lesa eru Miðstöð íslenskra bókmennta og Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO, með stuðningi frá Reykjavíkurborg og Mennta- og menningarmálaráðuneytinu.