Bókakaffi – Skáldsögur á leiksvið

Wednesday, 22. February 2017, 20:00 - 21:45
Menningarhús Gerðubergi – Borgarbókasafnið, Gerðubergi 3-5 Reykjavík

Á bókakaffi Borgarbókasafnins í febrúar fjallar Melkorka Tekla Ólafsdóttir um ferðalag skáldsögunnar yfir á leiksviðið.

Leikhúsunnendum finnst áhugavert að sjá ástsælar skáldsögur öðlast líf á leiksviðinu. En skáldsaga og leikverk eru að ýmsu leyti ólík listform. Hvernig ferðast skáldsaga frá blaðsíðum bókar yfir á leiksvið?

Ljósmynd Melkorka Tekla Ólafsdóttir
Melkorka Tekla Ólafsdóttir starfar sem leiklistarráðunautur í Þjóðleikhúsinu og hefur í störfum sínum tengst uppsetningum fjölda leiksýninga, auk þess sem hún hefur sjálf leikstýrt nokkrum sýningum, bæði á nýjum, íslenskum verkum og erlendum. Hún er höfundur leikgerðar að skáldsögunni Tímaþjófnum sem sýnd verður í Þjóðleikhúsinu seinni hluta vetrar.

Í erindi sínu mun hún fjalla um leikgerðir í víðu samhengi, með áherslu á þrjár leikgerðir sem frumsýndar eru fyrri hluta þessa leikárs í Þjóðleikhúsinu: Gott fólk, eftir skáldsögu Vals Grettissonar; Maður sem heitir Ove eftir vinsælli skáldsögu Svíans Fredriks Backman; og Djöflaeyjuna, eftir bók Einars Kárasonar, en Melkorka var einn af handritshöfundum síðastnefnda verksins.

Bókakaffi í Gerðubergi er hluti kaffikvölda í Gerðubergi og haldið mánaðarlega yfir vetrarmánuðina, fjórða miðvikudagskvöld í mánuði.