Gjugg í borg. Íslenskar og pólskar myndskreytingar

Wednesday, 22. March 2017 - Sunday, 2. April 2017, Allan daginn
Safnahúsið, Hverfisgötu 15 Reykjavík

Gjugg í borg

Þriðjudaginn 21. mars opnaði sýning í Safnahúsinu við Hverfisgötu á myndskreytingum úr pólskum og íslenskum barnabókum.

Sýningin, sem er á dagskrá Hönnunarmars, verður opin frá kl. 10 – 17 dagana 22. mars – 2. apríl.

Að auki verða ókeypis vinnusmiðjur fyrir börn með myndlistarmönnum og eru þær öllum opnar. Leiðsögn pólskra leiðbeinanda verður túlkuð á íslensku.

Um sýninguna

Mikilvægi bóka í lífi barna verður seint ofmetið. Með bóklestri kynnast börn menningu, bókmenntum og myndlist, oft í fyrsta sinn. Það er því til mikils að vinna að tryggja að þær bækur sem við bjóðum börnunum okkar séu vel unnar.

Á síðustu tíu árum eða svo hefur pólskur barnabókamarkaður staðið með miklum blóma. Mörg bókaforlög sem leggja metnað í útgáfu listrænna bóka, og taka með því vissa áhættu, hafa litið dagsins ljós og hafa þessar framúrskarandi bækur vakið mikla athygli, bæði heima fyrir og erlendis. Síðastliðin ár hafa pólskar barnabækur hlotið alþjóðleg verðlaun í vaxandi mæli og eru hin virtu Bologna Ragazzi verðlaun þar á meðal.

Svipaða þróun má sjá á íslenskum bókamarkaði, þar sem myndskreyttum barnabókum hefur fjölgað á síðustu árum. Við erum svo heppin að fram hafa komið metnaðarfullir myndskreytar sem hafa helgað sig barnabókum, en sem fyrsti snertiflötur lesenda við bókmenntir eru þær eru auðvitað sá grunnur sem bókmenntalífið hvílir á.

Á sýningunni í Safnahúsinu má sjá myndir eftir sextán pólska listamenn og sex íslenska og sýnir þetta úrval sumt af því besta í myndskreytingum beggja landa í dag.

Listamennirnir

Listamennirnir sem eiga myndir á sýningunni eru: Halldór Baldursson, Edgar Bąk, Katarzyna Bogucka, Iwona Chmielewska, Robert Czajka, Agata Dudek, Emilia Dziubak, Małgorzata Gurowska, Monika Hanulak, Ari Hlynur Guðmundsson Yates, Marta Ignerska, Bergrún Íris Sævarsdóttir, Áslaug Jónsdóttir, Aleksandra og Daniel Mizieliński, Marianna Oklejak, Linda Ólafsdóttir, Paweł Pawlak, Ola Płocińska, Kristín Ragna Gunnarsdóttir, Dawid Ryski, Piotr Socha og Marianna Sztyma.

Sýningarstjóri er Ewa Solarz.

Verkefnastjórn: Adam Mickiewicz Institute, í nafni Culture.pl.

Samstarfsaðilar: Safnahúsið, HönnunarMars, Sendiráð Póllands á Íslandi, Hönnunarmiðstöð Íslands, Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO, Wytwórnia.

Vinnusmiðjur

PeekabooWorkshops

Þriðjudagur 21.03.

Safnahúsið
Kl. 15
Kjallari– Smiðja fyrir börn
Robert Czajka: Pappírsborg
Þátttakendur byggja pappaborg út frá leikfangi sem Robert Czajka hefur hannað. Börnin geta hvort sem er sett saman hús úr pörtum sem eru til staðar eða skapað sín eigin og læra að skapa þrívíðar byggingar í ferlinu.

Miðvikudagur 22.03.

Safnahúsið
Kl. 12
Kjallari-Smiðja fyrir börn
Robert Czajka: Dýr / “Zwierzęta”
Í smiðjunni búa þátttakendur til dýr úr pappa út frá leikfangi sem Robert hefur hannað. Börnin geta líka skapað sín eigin dýr og læra þau að vinna með þrívíð form í ferlinu.

KEX Hostel
Kl. 16
Fyrirlestrar fyrir myndskreyta og aðra fagaðila. Iwona Chmielewska, Magdalena Kłos – Podsiadło.

Föstudagur 24.03.

Safnahúsið
Kl. 16
Kjallari– Smiðja fyrir börn
Gosia Gurowska: “Psikusy”
Hvernig á að búa til hund? Smiðja út frá bókinni “PSIKUSY”. Krakkarnir klippa út myndir af hundum og búa til alls kyns skrýtnar og skemmtilegar klippimyndir. Úr tilklipptum snoppum, loppum, kviðum, rófum og deplum, búa börnin til alls kyns tegundir hunda sem aldrei hafa sést áður.

Laugardagur 25.03.

Safnahúsið
Kl. 12
Kjallari– Smiðja fyrir börn
Gosia Gurowska: “Lokomotywa”
Smiðjan byggir á bókinni “Locomotive/IDEOLO”. Þátttakendur fá myndir af vögnum og kerrum, alveg eins og í bókinni, en þessir hafa engan farm. Það sem fer í vagnana er skapað af þátttakendum í smiðjunni.

Safnahúsið
Kl. 16
Kjallari– Smiðja fyrir börn
Iwona Chmielewska:“Trouble”
Við getum sagt alls konar sögur þótt við höfum bara eitt form – um þetta fjallar hin frábæra bók sem er kveikjan að þessari smiðju. Það kemur í ljós að ef ekki væri fyrir vandamál, mistök og tilraunir gætum við ekki kynnst öllum þeim möguleikum sem ímyndunaraflið býður okkur upp á.

Sunnudagur 26.03.

Safnahúsið
Kl. 10
Kjallari– Smiðja fyrir börn
Iwona Chmielewska “Augu”
Smiðja út frá bók um augu sem segir okkur sögu um það hvernig fötlun getur opnað nýja möguleika. Þegar við finnum nýjar og skapandi lausnir í þessari smiðju beinum við athyglinni fyrst og fremst að augunum, en við munum líka reyna að “sjá” með öðrum skilningarvitum.

Sunnudagur 2.04.

Safnahúsið
Kl. 11
Kjallari- Smiðja fyrir börn
Kristín Ragna Gunnarsdóttir, “Leðurblökulistasmiðja” / “The Friendly Bats Workshop”
Smiðja sem byggir á bókinni Úlfur og Edda: Dýrgripurinn.