Hvað er hún margar blaðsíður?

Saturday, 11. March 2017, 10:30 - 13:30
Menningarhús Gerðubergi – Borgarbókasafnið, Gerðubergi 3-5 Reykjavík

Hvað er hún margar blaðsíður? #unglingarlesa, Árleg barna- og unglingabókmenntaráðstefna í Gerðubergi

Árleg barna- og unglingabókaráðstefna fer fram í Menningarhúsi Gerðubergi laugardaginn 11. mars næstkomandi.
Ráðstefnan ber yfirskriftina „Hvað er hún margar blaðsíður?“ #unglingarlesa en þar verður sjónum einkum beint að lestri unglinga.

Gert verður hádegishlé frá 12 – 12.30 og geta gestir keypt veitingar hjá Cocina Rodríguez á staðnum.

Dagskrá:

Róbert Aron Garðarsson Proppé, unglingur: Hvað viljum við lesa?
Róbert er þrettán ára. Hann náði eyrum almennings fyrir jól, þegar hann vakti athygli á fátæklegu framboði barna- og unglingabókmennta á Íslandi.

Auður Albertsdóttir, blaðamaður og bókmenntafræðingur: SKAM og samfélagsmiðlar: Markaðsfræðilegt meistaraverk.
Norski unglingaþátturinn SKAM fer nú eins og eldur í sinu um heimsbyggðina, en þáttaröðin nýtir samfélagsmiðla á nýstárlegan hátt. Fjallað verður um hvernig SKAM notar samfélagsmiðla, bæði sem frásagnartækni og þegar kemur að sambandi áhorfenda við persónur. Geta barnabókahöfundar lært eitthvað af leikstjóra SKAM?

Þórhildur Garðarsdóttir, fjármálastjóri Forlagsins: Lestrarhvetjandi verkefni – Bókin frá öllum hliðum.
Þórhildur hefur staðið fyrir lestrarhvetjandi verkefnum með sjöundubekkingum á höfuðborgarsvæðinu, þar sem allir nemendur leggja sitt af mörkum við að skrifa bók.

Margrét Tryggvadóttir, rithöfundur: Barnabækur og ábyrgð stjórnvalda – hver er staðan?
Aldrei áður hafa barnabækur verið í eins harðri samkeppni við aðra afþreyingu og nú. Barnabókahöfundar og útgefendur keppast við að koma flottum bókum á markað þótt allir viti að útgáfa barnabóka á örtungumáli standi sjaldnast undir sér. Hver er ábyrgð stjórnvalda er kemur að barnabókum og lestri? Og hvernig getum við tryggt að góðar íslenskar barnabækur haldi áfram að koma út og ekki síst að þær rati til barnanna sjálfra?

Bryndís Björgvinsdóttir, rithöfundur: Að skrifa fyrir unglinga – að skrifa með unglingum.
Hvað er ólíkt með að skrifa fyrir unglinga og þá sem eldri eru? Bryndís ræðir og rabbar um „unglinginn“ og það að skrifa um unglinga fyrir unglinga, og það að skrifa um unglinga með unglingum.

Fundarstjóri: Ævar Þór Benediktsson

Allir velkomnir. Enginn aðgangseyrir.

Að ráðstefnunni standa Borgarbókasafn Reykjavíkur, Upplýsing – Félag bókasafns- og upplýsingafræða, Rithöfundasamband Íslands, IBBY á Íslandi, Skólasafnamiðstöð Reykjavíkur og Félag fagfólks á skólasöfnum.