Ölvaðar konur og gljáfægðir speglar

Wednesday, 7. October 2015, 17:15
Við Alþingishúsið, Kirkjustræti Reykjavík

Á slóðum kvenna í Bókmenntaborg

Svava Jakobsdóttir

Miðvikudaginn 7. október verður bókmenntamerking til heiðurs Svövu Jakobsdóttur rithöfundi afhjúpuð við Austurvöll, á horni Kirkjustrætis og Pósthússtrætis. Svava er í brennidepli á Lestrarhátíð í Bókmenntaborg í ár, en hún hefði orðið 85 ára nú í október. Úlfhildur Dagsdóttir bókmenntafræðingur ávarpar gesti og sonardætur Svövu, Svava Jakobsdóttir yngri og Ásta-María Jakobsdóttir, afhjúpa merkinguna.

Eftir athöfnina leiða Úlfhildur og leikkonan María Þórðardóttir bókmenntagöngu um slóðir skáldkvenna í miðborginni. Gangan nefnist Ölvaðar konur og gljáfægðir speglar: á slóðum kvenna í bókmenntaborg. Farið verður á milli staða sem hafa verið merktir konum í bókmenntasögu borgarinnar, m.a. Theodóru Thoroddsen, Málfríði Einarsdóttur og Ástu Sigurðardóttur. Síðastnefnda merkingin er einnig ný af nálinni og stendur hún við Laugaveg 11. Þar var vinsælt kaffihús á sjötta áratug síðustu aldar, sem var mikið sótt af skáldum og listamönnum. Í göngunni verður fjallað um margs konar söguefni þessara kvenna og skáldsystra þeirra, svo sem spegla, þvotta, ástir og ölvun, svo fátt eitt sé nefnt.

Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO hóf að kortleggja og merkja skáldaslóðir í borginni með bókmenntamerkingum á öðru starfsári sínu og var fyrsta merkingin afhjúpuð á Lestrarhátíð í október 2012. Hún er í Aðalstræti þar sem Langibar (Adlon) stóð og er tileinkuð Elíasi Mar. Bókmenntamerkingarnar eru hluti af menningarmerkingum Reykjavíkurborgar þar sem vakin er athygli á sögu og menningu borgarinnar í borgarlandinu.

Ekki þarf að bóka þátttöku í gönguna heldur bara mæta á Austurvöll kl. 17:15. Gangan tekur um eina og hálfa klukkustund á rólegu rölti.

Sjá heildardagskrá Lestrarhátíðar í Bókmenntaborg 2015, Sögur handa öllum