10 ára afmæli Bókmenntaborgarinnar

Í ár fagnar Reykjavík bókmenntaborg UNESCO 10 ára afmæli. Á bókamessu í Frankfurt árið 2011, þegar Ísland var heiðursgestur messunnar, var tilkynnt að Reykjavík hlyti þennan eftirsóknaverða titil, Bókmenntaborg UNESCO, þá fimmta borgin í heiminum til að verða þess heiðurs aðnjótandi. Í dag starfar Reykjavík í neti 39 Bókmenntaborga og er samstarfsnetið ört vaxandi. Samstarf Bókmenntaborga UNESCO um allan heim hefur opnað ný tækifæri fyrir íslenska orðlist í alþjóðlegu samhengi og ný tækifæri fyrir rithöfunda hafa skapast með gjöfulu samstarfi og kynningu. Gestadvöl og þýðingarverkefnum á milli landa hefur fjölgað í gegnum árin og með stækkun netsins opnast sífellt ný tækifæri í kynningu á íslenskum bókmenntum erlendis sem Reykjavík nýtir vel fyrir sína höfunda.

Einnig hefur Bókmenntaborgin stutt við margskonar orðlistarverkefni í borginni, haldið Bókamessu í Bókmenntaborg með Félagi íslenskra bókaútgefenda frá árinu 2011, unnið að nýsköpun með einstaka höfundum og skáldasamsteypum og stutt ötullega við grasrótarstarf á sviði orðlistar. Þá hefur Bókmenntaborgin unnið með rithöfundum sem skrifa á öðrum tungumálum en íslensku í borginni og náð að skapa vettvang fyrir ritlist í fjölbreyttu menningarlandslagi. Bókmenntaborgin rekur Gröndalshús í Grjótarþorpi sem er lítið bókmenntahús sem hýsir viðburðasal, vinnustofur fyrir íslenska höfunda og gestaíbúð fyrir erlenda rithöfunda sem vilja dvelja í Reykjavík við ritstörf í skamman tíma.

 

Afmælisgjöf

Afmælisgjöf til 1 árs barna í borginni.

Frá upphafi hefur Bókmenntaborgin unnið að lestrarhvatningu með skólum borgarinnar, fyrst í gegnum Lestrarhátíð í Bókmenntaborg og nú síðustu árin með verkefninu Sleipnir – lestrarfélagi barnanna. Verkefni í nafni Sleipnis eru til fyrir leikskólastigið og yngsta stig grunnskólanna og þakkar Bókmenntaborgin þann árangur sem náðst hefur ekki síst góðu samstarfi við skólabókasöfn og Borgarbókasafn. Í ár, fyrsta stórafmælisár Bókmenntaborgarinnar, viljum við fagna áfanganum með öllum eins árs börnum í borginni sem halda upp á sitt fyrsta merkisafmæli. Þessum börnum verður send afmælisgjöf frá Bókmenntaborginni sem minnir á töfra lestursins.

Börnin kynnast Sleipni – lestrarfélaga barnanna í sögunni Vetrarævintýri Sleipnis eftir Gerði Kristnýju og Gunnar Karlsson og í afmælispakkanum er líka fallegur bæklingur og lestrarstika, Barnið vex með hverri bók, eftir Bergrúnu Írisi Sævarsdóttur. Þar er uppalendum bent á lestraráherslur fyrir börn á ólíkum aldri. Hér má sjá Gerði Kristnýju í því skemmtilega hlutverki að afhenda fyrstu afmælisgjöfina ungum eins árs lestrarhesti.

Bæklingurinn hefst á þessum fallegu orðum: „Fyldu barninu þínu inn í ævintýraheim bókanna. Lesið, hlæið, undrist, grátið, verið hugrökk saman og lifið ykkur inn í bók því lestur er töfrum líkastur“ og minnir á mikilvægi þess að byrja snemma að lesa með börnum.

Hér má sjá Bergrúnu kynna efnið. Afmælisgjöfin fór í dreifingu í viku bókarinnar en á sama tíma fögnum við Barnamenningarhátíð í Reykjavík. Enginn þarf þó að örvænta þótt hún komi aðeins síðar í hús, við erum svo heppin að mörg börn fagna eins árs afmæli í borginni á þessu ári og því gefum við okkur apríl og maímánuði í dreifingu á afmælispakkanum heim til allra þessara barna í Reykjavík. Bókin er skrifuð á íslensku en þýðingar á Vetrarævintýri Sleipnis eru aðgengilegar á ensku, pólsku og sænsku hér á vefnum okkar. 

Að fagna orðlistinni

Á afmælisárinu verður litríkri orðlist fagnað í borginni með margvíslegum hætti og verða haldnir stærri og smærri viðburðir sem minna á það lifandi og kvika orðlistarlíf sem í borginni býr. Í haust verður útgáfu afmælisrits Bókmenntaborgarinnar fagnað þar sem reykvískir samtímahöfundar fjalla um ritlist og þýðingu hennar. Bókin er unnin í samstarfi við bókaútgáfuna Benedikt og er ritstjóri hennar Kjartan Már Ómarsson.

Alþjóðlega bókmenntahátíð í Reykjavík verður haldin í september og á sama tíma verða fulltrúar Bókmenntaborga UNESCO á ársfundi samtakanna í Reykjavík. Eins og síðasta ár hefur kennt okkur er þó erfitt að skipuleggja langt fram í tímann á þessum skrýtnu veirutímum. Við spörum því stóru orðin en kynnum nánar dagskrá afmælisársins um leið og það er hægt.