Beint í efni

Ævar Örn Jósepsson

Æviágrip

Ævar Örn Jósepsson fæddist í Hafnarfirði 25. ágúst 1963. Hann er yngstur í fjögurra systkina hópi. Hann bjó í Garðabæ fyrstu tvö æviárin (og segist hafa sloppið þaðan án þess að hljóta varanlegan skaða af), síðan í Hafnarfirði, en þegar hann var 16 ára flutti hann úr firðinum í sveit, nánar tiltekið í Skilmannahrepp austan Akraness (honum var mútað með hundi). Ævar varð stúdent af náttúrufræðibraut Fjölbrautarskólans á Akranesi 1983, en hann var skiptinemi í flæmskumælandi hluta Belgíu 1981-1982. Hann stundaði nám í fjölmiðlafræði, stjórnmálafræði og heimspeki við háskólann í Stirling í Skotlandi 1986-1987 og lauk síðan Magister Artium námi í heimspeki og enskum bókmenntum frá Albert-Ludwigs Universität í Freiburg í Þýskalandi 1994.

Ævar Örn hefur sinnt ýmsum störfum til sjós og lands. Hann stundaði sjómennsku á sumrin á menntaskólaárunum, auk almennra verkamannastarfa á Grundartanga og víðar. Hann var bankastarfsmaður frá 1984-1986, vann að dagskrárgerð í sjónvarpi 1986 og í útvarpi 1987 og 1988 og skrifaði um popptónlist fyrir Þjóðviljann. Ævar hefur einnig sinnt blaðamennsku með hléum frá 1994, meðal annars á Morgunpóstinum, Vísi.is, tímaritinu Ský og fleiri blöðum. Þá hefur hann fengist við þýðingar í lausamennsku og þýtt ýmsar greinar, skýrslur, sjálfshjálparbækur og fleira. Ævar Örn hefur unnið sem dagskrárgerðarmaður hjá RÚV, ýmist í lausamennsku eða föstu starfi frá 1995, aðallega í Dægurmálaútvarpi Rásar 2 og Speglinum. Hann var umsjónarmaður Sunnudagskaffis Rásar 2 veturinn 2004-2005 og gekk að eigin sögn af þeim þætti dauðum.

Ævar Örn hefur sent frá sér fimm glæpasögur, sú fyrsta var Skítadjobb sem kom út 2002. Sama ár gaf hann líka út bókina Taxi. 101 saga úr heimi íslenskra leigubílstjóra. Svartir englar kom út 2003, Blóðberg 2005, Sá yðar sem syndlaus er 2006 og sú nýjasta er Land tækifæranna, sem kom út hjá Uppheimum 2008. Í öllum glæpasögum Ævars segir af sama lögguteymi, þeim Stefáni, Katrínu, Árna og Guðna. Smásagan „Línudans“, sem birtist í Tímariti Máls og menningar 2004 kom einnig út á þýsku sama ár í smásagnasafninu Spannendsten Weihnachtgeschichten aus Skandinavien. Svartir englar og Blóðberg hafa komið út í þýðingum.

Ævar Örn býr í Mosfellsbæ. Hann er kvæntur Sigrúnu Guðmundsdóttur líffræðingi og eiga þau tvær dætur. Aðrir fjölskyldumeðlimir eru tvær læður, geldar.

Forlag: Uppheimar.

Mynd af höfundi: Friðþjófur Helgason.