Reykjavík Writing Jam

From the Reykjavík Writing Jam in Seattle 2014

 

Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO og systurborg Reykjavíkur, Seattle, tóku höndum saman haustið 2014 í verkefninu Reykjavik Writing Jam. Rithöfundarnir Bragi Ólafsson og Karen Finneyfrock skiptust á persónulýsingum og skrifuðu smásögur út frá þessum lýsingum (Bragi út frá persónulýsingu sem Karen samdi og öfugt). Þau frumfluttu svo sögurnar á Reykjavik Writing Jam í Elliot Bay Book Company í Seattle þann 10. október 2014.

Við sama tækifæri var gestum á viðburðinum boðið að búa til eigin handgerðar bækur (chapbooks) með sögunum tveimur, myndskreyta þær og föndra með þær að vild. Þeir sem vildu gátu síðan fengið áritun Braga og Karenar á þessi smárit.

Reykjavik Writing Jam var samstarfsverkefni Seattle City of Literature og Reykjavíkur Bókmenntaborgar UNESCO og hluti af  Taste of Iceland í Seattle. 

 

 

The author Karen Finneyfrock

Karen Finneyfrock er ljóðskáld og skáldsagnahöfundur frá Seattle. Hún er höfundur tveggja skáldsagna fyrir unga lesendur: The Sweet Revenge of Celia Door og Starbird Murphy and the World Outside. Forlagið Viking Children’s Books gaf báðar bækurnar út. Karen er einn ritstjóra safnritsins Courage: Daring Poems for Gutsy Girls, sem kom út hjá forlaginu Write Bloody Press, en sama forlag gaf út ljóðabók Karenar Ceremony for the Choking Ghost.

Karen var gestarithöfundur í Richard Hugo House í Seattle og hún er einn kennara í verkefninu Seattle Arts and Lectures’ Writers-in-the-Schools.

Árið 2010 fór Karen til Nepal á vegum bandaríska utanríkisráðuneytisins þar sem hún flutti og kenndi ljóðlist og árið 2011 tók hún þátt í upplestrarferð um Þýskaland á vegum sendiráðs Bandaríkjanna.

 

Bragi Ólafsson skrifar jöfnum höndum skáldsögur, smásögur, ljóð og leikrit. Skáldsögur hans eru afar frumlegar og bera sterk höfundareinkenni sem markast meðal annars af hárfínum húmor og sterkri sýn á hið sérstaka í hversdeginum, oft með tragíkómískum undirtónum. Persónur hans standa gjarnan frammi fyrir vali sem sýnist ómarkvert en reynist hafa stórkostleg áhrif á líf þeirra. Þannig verður til spenna í framrás sagna sem lýsa hversdagslegum viðburðum og hversdaglegu fólki. Skáldsaga Braga, Sendiherrann, hlaut Bókmenntaverðlaun bóksala 2006 og var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs.

Fyrsta útvarpsleikrit Braga vann fyrstu verðlaun í leikritasamkeppni RÚV og Rithöfundasambands Íslands árið 1995. Fyrsta sviðsverk hans, Belgíska Kongó var frumsýnt í Þjóðleikhúsinu 2004 og voru sýningar á þessu geysivinsæla verki 100 talsins. Bragi hlaut tilnefningu til Grímunnar sem leikskáld ársrins fyrir verkið og næsta leikrit sitt, Hænuungarnir. Auk frumsaminna verka hefur Bragi þýtt ljóð úr spænsku, ensku og frönsku og skáldsögu Paul Austers, Glerborgina.