Beint í efni

Anton Helgi Jónsson

Æviágrip

Anton Helgi Jónsson fæddist 15. janúar 1955 á Sólvangi í Hafnarfirði. Fyrstu æviárin bjó hann í Hraunkoti við Hellisgerði en seinna í Sjálfstæðishúsinu við Strandgötu þar sem móðir hans var húsvörður. Toni, eins og flestir kölluðu hann, gekk í Lækjarskólann, var í bekk hjá Herði Jafetssyni og vissi ekki betur en hann lifði í besta heimi allra heima. Tólf ára fluttist hann til Reykjavíkur og bjó þar síðan í mörg ár en flutti að lokum aftur í Fjörðinn og býr þar núna.

Auk þess að fást við ritstörf hefur Anton Helgi Jónsson starfað við eitt og annað um ævina. Hann vann m.a. sem sviðsmaður hjá Leikfélagi Reykjavíkur í nokkur ár og var seinna forstöðumaður þjónustumiðstöðvar fyrir fatlaða stúdenta í Stokkhólmi. Þá hefur Anton einnig unnið við auglýsingagerð og almannatengsl og rak um tíma fyrirtæki á því sviði. Anton lagði stund á heimspeki og bókmenntafræði við Stokkhólmsháskóla.

Anton Helgi Jónsson hefur einkum fengist við ljóðagerð en hefur einnig gefið út eina skáldsögu og birt nokkrar smásögur í tímaritum. Skáldsagan heitir Vinur vors og blóma og kom út 1982. Þá hefur hann skrifað nokkur leikrit og þýtt önnur. Mesta frægð hefur Anton líklega fengið fyrir útvarpsleikinn Frátekna borðið í Lourdres. Handritið hlaut fyrstu verðlaun í samkeppni hjá RÚV og var í kjölfarið þýtt á nokkur tungumál.

Anton Helgi hefur setið í nefndum fyrir hönd Rithöfundasambandsins í tengslum við bókmenntaverðlauna og úthlutun styrkja til höfunda.

Heimasíða : anton.is