Bækur og heimsmarkmiðin

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Bókmenntaborgir UNESCO vekja athygli á Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna með því að benda á bækur sem tengjast þeim á samfélagsmiðlum undir myllumerkinu #17Booksfor17SDGs. Tilefnið er loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna sem hefst í Madrid 2. desember 2019.

Síðustu ár hafa Bókmenntaborgir UNESCO bent lesendum á áhugaverðar bækur í lok árs eða í aðdraganda jóla. Að þessu sinni ætla borgirnar að vekja athygli á bókum sem geta minnt okkur á sautján heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og það munu þær gera dagana 2. – 18. desember í tilefni þess að loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna fer fram 2. – 13. desember í ár. 

Hvern þessara daga munu Bókmenntaborgir flagga einu heimsmarkmiðanna, þannig að 2. desember verður það fyrsta á dagskrá og síðan hvert af öðru. Bent verður á bækur af öllum toga sem á einhvern hátt tengjast þessum markmiðum, bæði skáldverk og fræðibækur. Hér í Reykjavík munum við aðallega beina athyglinni að nýjum bókum á íslensku úr útgáfuflóru ársins og pósta einni eða fleiri tillögum að lesefni sem tengist heimsmarkmiði dagsins á Facebook síðu Bókmenntaborgarinnar. Jafnframt eru lesendum hvattir til að bæta við fleiri tillögum, hvort sem er nýjum bókum eða eldri. Við látum því ekki staðar numið við 17 bækur heldur viljum við benda á sem flestar. Einnig munum við benda á íslenskar bækur í þýðingum á Twitter síðu Bókmenntaborgarinnar þar sem fylgjendahópurinn er alþjóðlegri.

Bókmenntaborgir UNESCO eru nú 39 talsins en í haust bættust 11 nýjar borgir í hópinn. Margar borganna munu vekja athygli á heimsmarkmiðunum og bókum þessa daga, flestar á Twitter en sumar á Facebook eða öðrum samfélagsmiðlum. Fylgjast má með undir myllumerkinu #17Booksfor17SDGs. 

Hér fyrir neðan má sjá þær bækur sem við bendum á á Facebook fyrir hvert heimsmarkmiðanna og bætast bækur við dag frá degi meðan á leiknum stendur. Einnig má fylgjast með Twitter síðunni okkar fyrir bækur í þýðingum.

Heimsmarkmið 1 - Engin fátækt

Heimsmarkmið 1 - Engin fátækt

Þetta heimsmarkmið miðar að því að útrýma fátækt í allri sinni mynd alls staðar.

I morgen er aldrig en ny dag / Tomorrow is Never a New Day. 
Bókin I morgen er aldri en ny dag er norrænt samstarfsverkefni barna og byggir á reynslu þeirra við að búa við fátækt. Fjögur íslensk ungmenni eiga sögur í bókinni, þær Alexandra Melkorka Róbertsdóttir, Charlotta Rós Sigmundsdóttir, Þórhildur Vígdögg Kristínardóttir og Sara Dögg Helenardóttir.
Útgefandi: Ordskælv, 2016.

Híbýli fátæktar - Húsnæði og veraldleg gæði fátæks fólks á 19. og fram á 20. öld
Finnur Jónasson, Sólveig Ólafsdóttir og Sigurður Gylfi Magnússon ritstýrðu. Hvað gerir hús að húsaskjóli og hvað þarf til lífsbjargar? Í þessari bók verða heimili, efnisleg gæði og daglegt líf fátæks fólks á 19. öld og á fyrri hluta 20. aldar til skoðunar. Fátækt hafði afgerandi áhrif á alþýðu landsins en hver voru hin samfélagslegu úrræði? Höfundar bókarinnar fjalla um fátækt á liðinni tíð frá ýmsum hliðum með sérstakri áherslu á híbýli. Hér birtist meðal annars stórt ljósmyndasafn Sigurðar Guttormssonar bankastarfsmanns frá Vestmannaeyjum (1930–45) um hreysi á Íslandi.
Útgefandi: Háskólaútgáfan, 2019.

Bjarni Harðarson: Svo skal dansa
Svo skal dansa er hetjusaga hinna snauðu og ættarsaga hinna ættlausu. Frásögnin hefst í ævintýralegu gistihúsi við Reykjavík en dvelur lengst við ástir og strit í fiskiplássum austur á Fjörðum. Bjarni Harðarson segir í þessari sögulegu skáldsögu af synd­ugum og brotgjörnum formæðrum sínum sem eiga það sammerkt að verða að yfirgefa börn sín en mæta allsleysinu og harðræði með brosið að vopni. Harmræn saga og óður til horfinna kvenna.
Útgefandi: Sæmundur, 2019.

Ekkert hungur

Heimsmarkmið 2 - Ekkert hungur

Þetta markmið miðar að því að útrýma hungri, tryggja fæðuöryggi og bætta næringu og stuðla að sjálfbærum landbúnaði.
 

Tryggvi Emilsson: Baráttan um brauðið
Bókin er hluti af klassískum þríleik Tryggva Emilssonar sem kom fyrst út á árunum 1976 – 1979 og var endurútgefinn fyrir nokkrum árum. Hinar tvær eru Fátækt fólk og Fyrir sunnan en bækurnar geyma æviminningar Tryggva og sögu verkalýðs og verkalýðsbaráttu bæði á norðurlandi og í höfuðborginni. Tvær fyrstu bækurnar voru tilnefndar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs.
Útgefandi: Mál og menning, 1977. Síðast endurútgefin 2012. 

Wojciech Grajkowski og Piotr Socha: Bók um bý
Sigurður Þór Salvarsson og Tómas Hermannsson þýddu. Þessi fallega bók um býflugur er margverðlaunuð um allan heim. Höfundurinn ólst upp í pólskri sveit þar sem faðir hans var býflugnabóndi. Hann fræðir okkur um fjölbreytt hlutverk býflugnanna, sögu þeirra og hvað gerir þær að mikilvægustu lífverum jarðar.
Útgefandi: Sögur, 2019.

Heilsa og vellíðan

Heimsmarkmið 3 - Heilsa og vellíðan

Þetta markmið miðar að því að stuðla að heilbrigðu líferni og vellíðan fyrir alla frá vöggu til grafar.

 

Ragnar Jónasson: Hvítidauði
Árið 1983 deyja tveir starfsmenn á berklahæli skammt frá Akureyri með undarlegum hætti. Afbrotafræðingur vinnur að lokaritgerð um þetta mál árið 2012 og kemur þá ýmislegt óvænt í ljós. Samhliða rannsókninni þarf hann að takast á við erfiðleika í einkalífi sínu sem þola illa dagsins ljós.
Útgefandi: Veröld, 2019.

Jón Gnarr: Indjáninn
Skálduð ævisaga. Þetta er saga um fjörmikinn strák, örverpi aldraðra foreldra. Drengurinn á við ýmis vandamál að stríða sem valda honum erfiðleikum í uppvextinum, svo sem ofvirkni, athyglisbrest, rautt hár og nærsýni. Bókin kom fyrst út 2006 og hefur verið endurprentuð nokkrum sinnum síðan, síðast nú í ár.
Útgefandi: Mál og menning, 2006 (endurútgáfa 2019).

Ari Jóhannesson: Urðarmáni
Söguleg skáldsaga. Haustið 1918 geysar spænska veikin. Landlæknir Íslendinga sætir harðri gagnrýni fyrir að gera ekki nóg til að verja landsmenn. Hann lætur engan bilbug á sér finna fyrr en dag einn þegar til hans leitar ung kona og óskar leyfis til ljósmóðurstarfa. Allt í kring herjar drepsóttin og fellir vini og ástvini.
Útgefandi: Mál og menning, 2019.

Roxane Gay: Hungur. Minning um líkama (minn)
Katrín Harðardóttir þýddi. Hér skrifar bandaríski rithöfundurinn Roxane Gay um eigin offþyngd og ýmis samfélagsleg og heilsufarsleg málefni sem henni tengjast, ekki síst um andlega heilsu, samskipti og kynjamálefni. 
Útgefandi: Bergmál, 2019.

Menntun fyrir alla

Heimsmarkmið 4 - Menntun fyrir alla

Fjórða heimsmarkmið, menntun fyrir alla, miðar að því að tryggja jafnan aðgang að góðri menntun og stuðla að tækifærum til náms alla ævi. Læsi er undirstaða menntunar á hvaða sviði sem er og aðgangur að góðum barnabókum skiptir hér höfuðmáli. Það á því við að benda á barna- og ungmennabækur almennt en við látum líka tvær fullorðins fljóta með þessum frábæru barnabókum úr bókaflórunni 2019 þar sem menntun og skólar koma við sögu.

Bergrún Íris Sævarsdóttir: Kennarinn sem hvarf
Krakkarnir í 6. BÖ eiga ekki margt sameiginlegt og semur oft illa – en dag einn breytist allt. Bára kennari er horfin og dularfullir atburðir draga krakkana inn í æsispennandi atburðarás. Bergrún Íris hlaut Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur 2019 fyrir óprentað handrit að bókinni.
Útgefandi: Bókabeitan, 2019.

Ragnhildur Hólmgeirsdóttir: Villueyjar
Á Útsölum stendur aðeins eitt hús: Skólahúsið. Frá því Arilda man eftir sér hefur þessi skóli verið hennar annað heimili. Hún hefur aldrei velt því fyrir sér hvers vegna hann standi á eyju sem annars er í eyði, ekki fyrr en daginn sem hún heldur inn á miðja eyjuna og villist í þokunni. Eftir það breytist allt. Smám saman rennur það upp fyrir Arildu að hún getur engum treyst. Hún verður sjálf að leita svara, ekki bara um hryllinginn sem býr á Útsölum heldur einnig um sína eigin fjölskyldu.
Útgefandi: Bókabeitan, 2019.

Rósa Eggertsdóttir: Hið ljúfa læsi
Hið ljúfa læsi er handbók um læsiskennslu fyrir kennara og kennaranema. Efni bókarinnar miðar við alla árganga grunnskólans. Bókinni fylgir minnislykill með verkefnum fyrir nemendur og ýmsum hagnýtum gögnum.
Útgefandi: Rósa Eggertsdóttir, 2019.

Tara Westover: Menntuð
Ævisaga. Ingunn Snædal þýddi úr ensku. Tara Westover ólst upp við undirbúning fyrir heimsendi, beið eftir að sólin myrkvaðist og máninn litaðist blóði. Á sumrin sauð hún niður ferskjur og á veturna safnaði hún neyðarbirgðum í þeirri von að þegar heimur manna liði undir lok myndu hún og fjölskylda hennar lifa af. Hún átti ekki fæðingarvottorð, engin einkunnablöð því að hún hafði aldrei stigið fæti inn í skólastofu og engar sjúkraskýrslur þar sem faðir hennar vantreysti heilbrigðiskerfinu. Samkvæmt öllum opinberum stofnunum var hún ekki til. Þegar hún eltist varð faðir hennar sífellt öfgafyllri í skoðunum og bróðir hennar æ ofbeldisfyllri. Sextán ára gömul ákvað Tara að mennta sig sjálf.
Útgefandi: Benedikt, 2019.

Ævar Þór Benediktsson og Bergrún Íris Sævarsdóttir: Stórhættulega stafrófið
Stórhættulega stafrófið er fyndið, skrítið og spennandi stafrófskver eftir Ævar Þór Benediktsson með myndum eftir Bergrúnu Írisi Sævarsdóttur. Fjóla á í stökustu vandræðum með stafina. Í raun finnst henni allt sem tengist lestri hljóma stórhættulega. Dag einn ákveður hún að halda tombólu og rekst á forvitnilega götu. Getur verið að húsin þar minni á bókstafi? Og af hverju eru íbúarnir svona skrýtnir?
Útgefandi: Mál og menning, 2019.

Jafnrétti kynjanna

Heimsmarkmið 5 - Jafnrétti kynjanna

Fjórða heimsmarkmiðið miðar að því að jafnrétti kynjanna verði tryggt og og völd allra kvenna og stúlkna efld. 

Það er enginn hörgull á bókum sem taka á þessu málefni en við nefnum hér fjórar sem komu út nú í ár, 2019.
 

Brynhildur Þórarinsdóttir: Ungfrú fótbolti
Vinkonurnar Gerða og Ninna eru alveg fótboltaóðar. Götuboltaliðið æfir þrotlaust og stelpurnar eru stórhuga, þær vilja keppa á alvöru velli eins og strákarnir. En þá þarf að taka slaginn við samfélag sem hefur mjög skýrar hugmyndir um hvað 13 ára stelpur mega gera. Ungfrú fótbolti er baráttusaga sem gerist innan um hálfbyggðu húsin í Breiðholtinu 1980, sumarið sem Vigdís Finnbogadóttir skoraði hefðirnar á hólm og bauð sig fram til forseta.
Útgefandi: Mál og menning, 2019.

Dóra S. Bjarnason: Brot - konur sem þorðu
Brot er saga um lífshlaup þriggja kynslóða kvenna; þeirra Adeline, Ingibjargar og Veru. Líf mæðgnanna spannar 137 ár, frá 1867 til 2004, tímabil stórkostlegra breytinga á nánast öllum sviðum. Þessar þrjár konur voru, hver á sinn hátt, frumkvöðlar í baráttu kvenna fyrir frelsi og jafnrétti; gáfaðar, lærðar og sigldu oftast á móti straumnum.
Adeline var einna fyrst kvenna til að gegna kennarastöðu í evrópskum háskóla, Ingibjörg var listmálari og sýndi verk sín í samfloti með Mondrian í París, en flutti síðan með dóttur sína til Reykjavíkur þar sem hún var snyrtivöruframleiðandi á árunum 1933 til 1939, þegar þær mæðgur fluttu til Buenos Aíres. Vera dóttir hennar var einnig listmálari, kennari og þerapisti áður en leiðir hennar og bókarhöfundar lágu saman í Tórínó á Ítalíu.
Útgefandi: Benedikt, 2019.

Rán Flygenring: Vigdís - bókin um fyrsta konuforsetann
Upprennandi rithöfundur bankar upp á hjá frú Vigdísi Finnbogadóttur og býður sér í kaffi því hún ætlar að skrifa bók um fyrstu konuna í heiminum sem kosin var forseti. Í heimsókninni verður stúlkan margs vísari um frumkvöðulinn Vigdísi og forsetahlutverkið. Hún rekst líka á alvöru sverð frá Finnlandi, lærir hrafl í frönsku og kemst að því að einu sinni bjuggu kindur í Reykjavík. Bók um merkilega konu sem dreymdi um að verða skipstjóri en endaði sem forseti.
Hér kynnir Rán Flygenring Vigdísi Finnbogadóttur fyrir nýjum kynslóðum í máli og myndum.
Útgefandi: Angústúra, 2019.

Hreint vatn og hreinlætisaðstaða

Heimsmarkmið 6 - Hreint vatn og hreinlætisaðstaða

Þetta heimsmarkmið snýr að hreinu vatni og hreinlætisaðstöðu. Þar er leitast við að tryggja aðgengi að og sjálfbæra nýtingu á hreinu vatni og salernisaðstöðu. Hér bendum við á bók sem fyrst kom út árið 1958 en hefur nú verið endurútgefin.

Arnfríður Jónatansdóttir: Þröskuldur hússins er þjöl
Ljóðskáldið og verkakonan Arnfríður Jónatansdóttir (1923-2006) bjó lenst af við kröpp kjör í braggahverfum Reykjavíkur. Hún hefur verið kölluð fyrsti kvenkyns módernistinn og gleymda atómsskáldið. Þessi ljóðabók, sem er hennar eina, kom fyrst út árið 1958 og er nú gefin út að nýju með viðaukum, viðtali við skáldið og inngangi eftir Soffíu Auði Birgisdóttur bókmenntafræðing.
Útgefandi: Una útgáfuhús, 2019.

 

Sjálfbær orka

Heimsmarkmið 7 - Sjálfbær orka

Sjöunda heimsmarkmiðið miðar að því að tryggja öllum aðgang að öruggri og sjálfbærri orku á viðráðanlegu verði.

 

Fred Magdoff og John Bellamy Foster: Það sem allir umhverfissinnar þurfa að vita um kapítalisma
Þorvaldur Þorvaldsson þýddi.
Þessi bók fjallar ítarlega um tengslin milli grunneðlis kapítalismans og umhverfisvanda okkar tíma. Samkvæmd höfundum kallar hann á tafarlausar þjóðfélagsbreytingar þar sem jöfnuður og hófsemi eru í fyrirrúmi sem spara samfélaginu mikinn sársauka. Að sama skapi muni dráttur á þeim valda miklum þjáningum.
Útgefandi: Skrudda, 2019.

 

Góð atvinna og hagvöxtur

Heimsmarkmið 8 - Góð atvinna og hagvöxtur

Þetta markmið leitast við að stuðla að viðvarandi sjálfbærum hagvexti og arðbærum og mannsæmandi atvinnutækifærum fyrir alla.

Páll Baldvin Baldvinsson: Síldarárin 1867 - 1969
Bókin fjallar um síldarævintýrið í sögu þjóðarinnar. Á þeim hundrað árum sem hér er fjallað um umbreyttist Ísland úr örsnauðu þróunarlandi í tæknivætt velferðarríki. Síldin reyndist þar mikill örlagavaldur, og ósennilegt er að lífskjör væru hér svo góð sem raun ber vitni ef hennar hefði ekki notið við.
Þetta ævintýralega skeið hófst með tilraunum Norðmanna til síldveiða undan Austurlandi á síðari hluta 19. aldar; brátt tóku Íslendingar sjálfir við og hagnýttu sér margvíslegar tækninýjungar. Í kjölfarið risu söltunarbryggjur víða um land og sömuleiðis stórvirkar síldarverksmiðjur. Fjölbreyttar nýjar atvinnugreinar ruddu sér til rúms samhliða og ný markaðssvæði opnuðust fyrir afurðir landsmanna.
Meðan á veiðum stóð bauðst hér meiri atvinna en nokkru sinni fyrr, allir lögðu hönd á plóg við að skapa auðinn. Sum árin græddu menn vel, önnur síður, auk þess sem veiðarnar færðust frá einum landshluta í annan og þar kom loks að ævintýrinu lauk með nær algjöru hruni í síldveiðum við Ísland.
Í bókinni er þessari mikilvægu sögu gerð skil í margradda frásögn síldarstúlkna og spekúlanta, aflakónga og ævintýramanna. Auk þess prýða verkið á annað þúsund ljósmynda sem flestar koma fyrir almenningssjónir í fyrsta sinn. 
Útgefandi: JPV, 2019.

Nýsköpun

Heimsmarkmið 9 - Nýsköpun og uppbygging

Með níunda heimsmarkmiðinu er stefnt að því að byggja upp trausta innviði, stuðla að sjálfbærri iðnvæðingu og hlúa að nýsköpun. 

Ólafur Andri Ragnarsson: Fjórða iðnbyltingin
Fjórða iðnbyltingin stendur nú yfir og framundan eru miklar breytingar. Róbotar taka yfir störf, gervigreind leysir ráðgjafa af hólmi og drónar munu ferja fólk og varning. Tækni framtíðarinnar er í senn heillandi, ógnvænleg og sveipuð óvissu. Hér fer Ólafur Andri Ragnarsson, tölvunarfræðingur og aðjúnkt við Háskólann í Reykjavík, yfir iðnbyltingar fyrri tíma og ræðir við hverju megi búast af þeirri fjórðu.
Útgefandi: BF, 2019.

Sigrún Eldjárn: Kopareggið
Sumarliði og Sóldís eru flutt inn til flóttastelpunnar Karítasar. Þar er fullt af bókum sem þau gleypa í sig til að finna út hvernig lífið var í gamla daga þegar fólk átti síma, tölvur og reiðhjól. Inni á milli bókanna leynast líka hátæknileg skilaboð frá fortíðinni. Bókin er sjálfstætt framhald Silfurlykilsins.
Útgefandi: Mál og menning, 2019.

Hallgrímur Helgason: Sextíu kíló af sólskini
Drengur sem bjargast fyrir kraftaverk hlýtur að eiga framtíð en það er eins og forlögin geti ekki gert upp við sig hver sú framtíð eigi að vera. Á hann að vera eftirlæti kaupmannsins á Fagureyri, þræll á framandi duggu eða niðursetningur hjá kotungum í Segulfirði? Í stöðnuðu samfélagi torfaldar eru ekki fleiri möguleikar – en svo kemur síldin. Öreigar landsins sjá peninga í fyrsta sinn og allt breytir um svip. Sextíu kíló af sólskini fjallar um mikla umbrotatíma í íslenskri sögu; hér segir af því þegar nútíminn sigldi til hafnar á Norðurlandi og Norðmenn námu landið öðru sinni.