Beint í efni

Bensi og aðrir fuglar

 

Benedikt Gröndal og Gröndalshús í brennidepli í október

Í október verður skáldið Benedikt Gröndal og nýopnað Gröndalshús í Grjótaþorpi í brennidepli hjá Bókmenntaborginni Reykjavík. Fjölbreytt dagskrá verður í húsinu og víðar allan mánuðinn. Gröndalshús var opnað þann 17. júní síðastliðinn í glæsilegri endurgerð Minjaverndar og er þar sýning um Benedikt Gröndal og Reykjavík á hans tímum. 

Gröndal fæddist þann 6. október 1826 og er afmælismánuðurinn helgaður þessum litríka lista- og fræðimanni með dagskrá í húsinu sem kennt er við hann. Þar bjó hann tvo síðustu tugi ævinnar, frá 1888 – 1907, ásamt Helgu dóttur sinni og vinnustúlkum, en Gröndal hafði þá misst Ingu konu sína og tvær aðrar dætur. 

Frítt  verður inn í Gröndalshús allan októbermánuð en það er opið fimmtudaga til sunnudaga frá kl. 13 – 17. 

Benedikt Gröndal var stórhugi á sínum tíma og má nefna hann glæsilegan fulltrúa nítjándu aldarinnar. Hann var skáld, náttúrufræðingur, myndlistarmaður, þýðandi og kennari. Hann var einnig áhugamaður um mótun bæjarins og þróun Reykjavíkur sem höfuðstaðar Íslands. Auk ljóða og prósatexta liggja eftir hann greinar um lífið í bænum þar sem hann leggur til umbætur á höfuðstaðnum í anda þess sem tíðkast í erlendum stórborgum. Gröndal var sonur Sveinbjarnar Egilssonar og Helgu Gröndal. Hann fæddist á Bessastöðum og ólst upp á Álftanesi en bjó síðar í Reykjavík, Kaupmannahöfn og víðar. 

Minning Gröndals dofnaði um miðbik síðustu aldar en mikilvægi hans í íslenskri bókmennta- og menningarsögu hefur verið staðfest síðastliðin ár með útgáfu á verki hans Íslenskir fuglar og endurútgáfu á sjálfsævisögu hans, Dægradvöl, sem er ein rómaðasta sjálfsævisaga íslenskra bókmennta. Gröndal er einnig lifandi í skáldverkum samtímaskálda og má þar nefna skáldsögurnar Sæmd eftir Guðmund Andra Thorsson og Öræfi Ófeigs Sigurðssonar. Þá hefur Teitur Magnússon samið lag við ljóð hans „Nenni“ og fleiri tónlistamenn hafa sungið ljóð hans á allra síðustu árum. 

Sjá nánar um Gröndal og Gröndalshús hér á vefnum 

Fjölbreytt dagskrá

[[{"fid":"5785","view_mode":"default","fields":{"format":"default","field_file_image_alt_text[is][0][value]":"Íslenskir fuglar","field_file_image_title_text[is][0][value]":"Íslenskir fuglar","external_url":""},"type":"media","field_deltas":{"2":{"format":"default","field_file_image_alt_text[is][0][value]":"Íslenskir fuglar","field_file_image_title_text[is][0][value]":"Íslenskir fuglar","external_url":""}},"attributes":{"alt":"Íslenskir fuglar","title":"Íslenskir fuglar","class":"media-element file-default","data-delta":"2"}}]]

Í október verður dagskrá í Gröndalshúsi þar sem farið verður yfir sögu hússins og skáldsins. Guðmundur Andri Thorsson fjallar um skáldið Gröndal, Goddur um myndlistarmanninn og Kristinn H. Skarphéðinsson um náttúrufræðinginn. Þá mun Guðrún Egilson segja sögur af þessum skrautlega ættingja sínum og Hjörleifur Stefánsson arkitekt segir gestum frá sögu hússins og endurgerð þess. Landsbókasafn Íslands opnar sýningu á afmælisdegi Gröndals þann  6. október þar sem úrval af handritum hans verður til sýnis. Fyrir opnunina standa safnið og Bókmenntaborgin saman að dagskrá við Gröndalshús og blysför til heiðurs Gröndal, en nemendur hans úr Lærða skólanum fóru blysför að húsi hans á áttræðisafmæli skáldsins árið 1906. Bókakaffi Gerðubergs í október verður helgað Benedikt Gröndal og dagskrá um hann verður á fæðingarstað hans, Bessastöðum í mánuðinum.

Frítt verður inn á alla viðburði en þar sem plássið í stofum Gröndals er takmarkað þarf að bóka þátttöku á suma viðburðanna. 

Sjá dagskrána og upplýsingar um bókanir hér

Sjá hugmyndabanka fyrir skóla hér