1983

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2013
Flokkur: 

Um bókina

Á hjara veraldar er tólf ára gamall drengur á hraðri ferð inn í heim hinna fullorðnu. Á einu ári uppgötvar hann ekki aðeins ástina heldur einnig hverfulleikann, um leið og hann vígist inn í heim orðanna.

Hér er sögð nýstárleg saga úr íslensku þorpi á fyrri hluta níunda áratugarins, heimi sem er í senn framandi og kunnuglegur. Þetta er bók um þrá eftir hinu óljósa, leitina að sjálfum sér, draumkennd skip, og gamla loftbelgi sem líða um hugarheima ungmenna mjög ofarlega á slönguspilinu. Síðast en ekki síst er þetta ástarsaga sem gerist fjarri öllum kastljósum úti við ysta haf.

Úr 1983

En það er árið 1983, við skulum ekki gleyma því, við skulum aldrei gleyma því, það er vetur hér, eins og ég hef heyrt hana Sylviu Plath,vinkonu mína, segja svo oft. Það róar mann, bara að skrifa þetta, það er vetur hér, ekki svo ýkja langt síðan sjónvarpsþulan birtist á skjánum og sagði, næst á dagskrá er sjónvarpsþátturinn Gæfa og gjörvileiki, maður skildi ekki titilinn, að minnsta kosti ekki orðið gjörvileiki, en það fór ekki hjá því að manni yrði hugsað til frænda hans Bassa, vélamanns úr frystihúsinu, manns sem gat að sögn allt en gerði samt heiðarlega tilraun til að svipta sig lífi eitt kvöldið þegar hann sat fyrir framan sjónvarpið, konan farin og dóttirin, Helga, þegar þyrmdi yfir hann, fyrr en varði var hlaupið komið upp í munninn, þetta var í húsinu við hliðina á prestbústaðnum. Einhver kom að honum þar sem hann lá í blóði sínu, og það mátti víst ekki tæpara standa, svo fór hann burt og sást ekki meir hér, en náði sér víst á strik, annars staðar. Orðið gjörvileiki molnaði í sundur í hvert sinn sem þulan birtist á skjánum, nýkomin af sýningu hjá Módel 79-samtökunum, meikuð eins og hún væri að fara á dansleik í Hollywood eða helvíti, það var greinilegt að hún náði engan veginn utan um þetta orð, ég gerði það ekki heldur. Það var ekkert skýrara þegar maður las það í prentaðri sjónvarpsdagskrá í Tímanum, við hliðina á auglýsingu um Braun-rakvélar, litla ljósálfinn sem fór sigurför um heiminn og splunkunýja Sódastrím-tækið sem var skyldueign á hverju heimili. En maður skildi það mögulega síðar. Gæfa og gjörvileiki, þetta tvennt fór ekki alltaf saman, Bassi var skýrasta dæmið. Hann var eins og frændinn, gat allt, átti til dæmis metið í Donkey Kong, apaspilinu með stúlkunni og olíutunnunum, lengst allra. Átti auðvelt með að bjarga stelpunni, og gerði það aftur og aftur eftir að hafa prílað upp alla stigana, og þá heyrðist alveg hreint guðdómleg tónlist. Svo dansaði enginn betur við London Calling en hann, ekki einu sinni Henríetta Magnúsdóttir, en þá var hann líka búinn að drekka hálfa Martíní-flösku og kominn upp á borð, tvistur farinn út til að drepa á skíðalyftunni eða moka snjó.

(50-1)