Ævar á grænni grein

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1991
Flokkur: 

Myndir: Gunnar Karlsson.

Úr Ævari á grænni grein:

„Komið þið nú og fáið ykkur brauð og ávexti,“ sagði amma við krakkana.
 „Við getum það ekki, amma mín, við verðum að borða nammi af því að að er nammidagur,“ svaraði Ævar fullur ábyrgðar.
„Affí þa e nammidagu,“ át sú litla upp eftir honum.
Þegar þau höfðu sleikt upp allt súkkulaðið voru þau orðin brún út undir eyru og fallegi ljósblái gallinn hennar Lóu var líka orðinn brúnflekkóttur.
„Nú skulum við þvo þeim, ég er með nóg af bréfþurrkum,“ sagði amma.
Afi fór með þau niður að vatninu. Vatnsbakkinn var brattur en hann teygði sig niður og vætti eina bréfþurrkuna. Svo nuddaði hann fésið á Lóu þrátt fyrir hávær mótmæli og þegar hann var búinn að þvo henni sneri hann sér að Ævari.
Líklega fannst Lóu hún ekki vera orðin nógu hrein. Hún nældi sér í þurrku úr pakkanum og teygði sig að vatninu til að væta hana. Hún teygði sig og teygði og teygði...
Afi var að nudda nefið á Ævari þegar hann heyrði vein. Eldsnöggt sneri hann sér við og sá Lóu litlu steypast á kollinn fram af bakkanum. Hann fleygði sér fram í ofboði og náði að grípa í annan fótinn um leið og hún hvarf í gruggugt vatnið.
Það var ekki sjón að sjá litlu stelpuna þegar afi dró hana á land. Vatnið frussaðist í allar áttir og hún var öll rennandi blaut, nema skórinn og sokkurinn vinstra megin. Andlitið var rautt af skelfingu og varirnar bláar.
Hún grét svo hátt að börnin sem voru að leika sér á leikvellinum stoppuðu og mændu á hana eins og naut á nývirki. Ævari fannst hún grenja alltof hátt en í þetta skipti reiddist hann ekki, heldur gekk til hennar, klappaði henni aðeins og sagði:
„Svona, svona, nú er allt búið.“

(s. 71-73)