Áhyggjudúkkur

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2002
Flokkur: 

Um bókina:

Í þessari nýju skáldsögu eftir Steinar Braga slást lesendur í för með nafnkunnu sem og ókunnu fólki sem allt á það sameiginlegt að eiga leið hjá bókabúð Máls og menningar á Laugaveginum í jólaösinni, í misgöfugum erindagjörðum þó. Skyggnst er inn í hugarheim þessara persóna og lesendur deila með þeim þeirra innstu hugsunum.


Úr Áhyggjudúkkum
:

Egill og Rúna tóku ekki sérstaklega eftir því; hljóðið hvarf inn í fjörlega salsa-tónlistina.

Egill og Rúna sátu á Kaffi List með tvær Chic-bjórflöskur á milli sín. Rúna var hætt að vinna og var fegin að vera komin í helgarfrí. Frá klukkan tíu um morguninn hafði hún afgreitt á Súfistanum, kaffihúsinu í bókabúð Máls og menningar, Laugavegi, og nú var hún værðarleg og afslöppuð til augnanna og naut þess að sitja hreyfingarlaus og láta þreytuna líða úr löppunum. Þau sátu í bás við vesturvegginn og Egil svimaði, of mikið kaffi og hann langaði að borða (án þess að vera svangur). Hann var orðinn leiður á Rúnu, þrátt fyrir að samvistir þeirra væru tiltölulegar nýhafnar og honum fannst hún heimsk. Hann var spenntari fyrir undarlegu brúnhærðu stelpunni í gallabuxunum sem sat ein við borð við austurvegginn og saup á rauðvíni, hún virtist greind og dularfull, óræð til augnanna.

Að utan barst hávært sírenuhljóð; sírenurnar urðu háværari. Egill sá útundan sér að Rúna fylgdist sljóum augum með hverri hreyfingu hans - full af lotningu? Af því að hann virkaði svona gáfaður á hana? Var hún að bíða eftir því að hann segði eitthvað um sírenurnar? Var hún virkilega svona mikið fífl?

Það eina sem komst að í hausnum á Agli eftir að hann áttaði sig á heimsku Rúnu var að losa sig við hana, drífa sig til Lalla og Sebastians og fá sér að reykja og tala um eitthvað, Bakhtin og hláturinn. Hann langaði til að reyna við stelpuna þarna við austurvegginn sem hann vissi ekki að hét Fríða og Fríða hefði líklega látið til leiðast ef hann hefði kjark í sér til að fara yfir og spyrja hana hvort hún væri til í að tala. En það vissi hann ekkert um.

(s. 53-4)