Aldingarðurinn

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2006
Flokkur: 

Bókin kom út samtímis á Íslandi og í Bandaríkjunum. Enskur titill verksins er Valentines

Af bókarkápu:

Ástin og tíminn, tvö sterkustu öflin í mannlegri tilveru, eru meginstefin í þessari seiðmögnuðu bók Ólafs Jóhanss Ólafssonar. Hún fylgir árhringnum, hver frásögn ber nafn eins mánaðanna og fléttast þær þannig saman bæði í efni og byggingu. Þetta er bók um tryggð og svik, hamingju og sorg, lævíslegar grunsemdir og grunsamlegar ímyndanir, ástríðufulla þrá og leik að eldi ...

Úr Aldingarðinum:

Um haustið tóku Lawrence og Sóley á leigu litla íbúð neðarlega á Manhattan, steinsnar frá Gramercy Park. Hún var falleg og björt með útsýni úr stofugluggunum yfir skrúðgarðinn. Lawrence vann mikið og þau hittu Hermann sjaldan. Sóley talaði samt reglulega við hann í síma og líka við systur sínar. Þótt hann bæri sig alltaf vel bar þeim saman um að hann væri einmanna, einkum Sóleyju og Rós. Dísu fannst hann hins vegar vera að jafna sig. Hann færi oftar á tónleika en áður, sagði hún, og hefði bætt við sig skylmingatímum. Sóley sagði þeim líka frá flúðasiglingunni.
Hann fraus, sagði hún.
Varstu ekki búin að segja pabba að hann væri lofthræddur? spurði Dísa.
Jú, sagði Sóley, en hann gat ekki vitað að það kæmi fram þarna.
Pabbi er harðjaxl, sagði Rós. Hann heldur að allir aðrir séu það líka.
Hann bjargaði honum, sagði Sóley.
Það hefur nú átt við hann, sagði Dísa.
Hermann hafði átt þrjú stefnumót um haustið. Þá var hálft þriðja ár liðið frá því Lára féll frá og því fannst velunnurum hans við hæfi að kynna hann fyrir konum sem þeir töldu eftirsóknarverðar. Ein var systir skjólstæðings hans. Hún var fráskilin, nokkrum árum yngri en Hermann og þótti glæsileg. Hermanni leiddist með henni á veitingastaðnum sem þau fóru á þótt maturinn væri góður og þjónustan framúrskarandi. Honum leiddist líka með hinum konunum. Hann langaði hvorki að tala við þær né sænga hjá þeim.
Hann saknaði Láru.
(145-146)