Allt hold er hey

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2004
Flokkur: 

Úr Allt hold er hey:

Jón lá með höfuðið í kjöltu Guðbjargar þegar hurðinni var hrundið upp. Hún pírði augun og lagði annan lófann yfir andlit hans þegar birtan ruddist inn. Mennirnir skipuðu fólkinu að drífa sig á lappir.
Við ætlum að viðra ykkur, vel og lengi, sagði sá hávaxnari og glotti. Hæðnin leyndi sér ekki. Hann saug upp í nefið og hopaði þegar Guðbjörg leit á hann. Hinn lét ekki sitt eftir liggja.
Við förum í skemmtilega gönguferð. Takið allt með ykkur. Handleggina. Tærnar. Eyrun.
Hann rak upp roknahlátur og sló í öxl félaga síns. Já, ekki gleyma því nauðsynlegasta. Annars gætu mýsnar gætt sér á því.
Guðbjörg reis upp og lét sem hún sæi ekki mennina. Hún fetti sig um leið og hún studdi við mjóbakið. Aðstoðaði Jón síðan við að standa á fætur. Hann var brattari en deginum áður. Þau fikruðu sig út en var fyrirskipað að bíða eftir hinum. Stúlkurnar birtust skömmu síðar, þungstígar og kvíðafullar. Holdsveiku mennirnir og konan voru engan veginn í stakk búin að leggja upp í fjallgöngu. Þau brugðu höndum fyrir höfuð sér þegar þau gengu út í dagsbirtuna, klóruðu sér og biðu álút eftir skipunum. Skömmu síðar voru þau rekin út á tún þar sem þeim var gert að bíða uns þeim yrði færður matur.
Starkaður lá grafkyrr þótt hann heyrði í samföngum sínum í fjarska. Hann gaut reyndar augunum að þeim en ákvað að bíða með að slást í þeirra hóp. Stuttu seinna var sparkað í hann með þeim fyrirmælum að hann ætti að færa sig um set.
Guðbjörg tók hlýlega á móti honum og Jón brosti veiklulega. Starkaður settist hjá þeim. Við skulum ekki storka þeim, sagði Guðbjörg kvíðafull. Við munum hafa nægan tíma til að leggja á ráðin. Verðum að vera þolinmóð.
Starkaður leit svipbrigðalaust á hana. Stuttu seinna lagðist hann á bakið og krosslagði hendur á brjóstinu. Honum fannst hann snúast í hringi þegar hann lokaði augunum. Hann langaði að hverfa.

(s. 87-88)