Alltaf sama sagan

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2009
Flokkur: 
Um bókina:

Alltaf sama sagan kom út 22. ágúst 2009, en sama dag fagnaði höfundurinn sextugsafmæli sínu. Safnið hefur að geyma ellefu sögur um fólk og margvíslegar furður í fortíð, nútíð og framtíð. Skáldmæltur hundur kemur nokkuð við sögu, eldforn Saab bifreið, dularfullur kauði og glataður hamar; bylting verður í íþróttalífi landsmanna, sagt er af draugagangi og mannraunum og eins er spurt: Hvað ef …?

Úr Alltaf sömu sögunni:

Úr Skálda

Tíkin mín er farin að yrkja. Á því er enginn vafi lengur. Það er talsvert síðan ég tók fyrst eftir undarlegri hegðan hjá henni. Einkennilegheitum sem erfitt var að henda almennilega reiður á. Fyrst hélt ég hún væri komin á lóðarí. Það var þó reyndar alls ekki tímabært og þessi hegðan lýsti sér auk þess allt öðruvísi. Það er ekki auðvelt að útskýra á hvaða hátt. Þetta var bara eitthvað sem mér fannst ég skynja. Fyrst og fremst birtist það í augnaráðinu. Ég stóð skepnuna að því að mæna á mig í tíma og ótíma. Mest í ótíma. Og einhvernveginn öðruvísi en fyrr. Ámátlega. Yfirleitt alveg að tilefnislausu fannst mér. Ég meina án þess hún væri að fiska eftir göngutúr eða góðgæti. Það hvarflaði jafnvel að mér að hún gæti verið hvolpafull, að óboðinn rakki hefði með yfirskilvitlegum hætti sloppið á hana. Það var þó af og frá. Þunginn reyndist líka allt annar.

Ég hélt áfram að veita þessum frávikum eftirtekt, undraðist þau nokkuð, en gat svo sem lítið að gert. Og kannski var þetta tóm ímyndun eða eðlileg þróun. En svo var það kvöld eitt að ég stóð við strauborðið inni í svefnherberginu mínu og var að bisa við að strauja af mér hvíta skyrtu. Ég vissi af Skáldu fyrir aftan mig, hún lá dormandi á teppinu sínu úti í horni, í öngviti afslöppunar að ég hélt. Þá fékk ég skyndilega þessa tilfinningu eins og einhver væri að stara á mig, nísti mig hreinlega í hnakkann, ég hef alltaf verið næmur fyrir slíku. Ég leit eldsnöggt um öxl. Og mikið rétt, tíkin er þá risin upp og mænir svona á mig, á þennan hátt sem ég var að reyna að lýsa. Og það var þá sem þetta gerðist fyrst: Án þess ég fengi rönd við reist rann þessi vísa frá henni til mín:

Maðurinn er miður sín,
meira en bara dáldið,
stendur þar og strýkur lín
stirðum höndum skáldið.

(s. 43-45)