Andlit

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2003
Flokkur: 

Úr Andliti:

Á Eyrarbakka komst ég að því að ég bjó yfir öfugsnúinni skyggnigáfu. Hvenær sem minnst var á skóla við mig þá sá ég í gegnum holt og hæðir. Á Bakkanum voru að vísu hvorki holt né hæðir, heldur gömul lágreist hús, og sá ég í gegnum þau. Því gufaði skólinn alltaf upp eins og hilling áður en ég náði þangað. Krakkarnir á Bakkanum bönkuðu upp á og buðustu til að fylgja mér, en ég kvaðst bara ekki treysta mér til þess. Ég gæti rétt eins látið ginna mig í messu hjá huldufólki eins og að fara að mæta í skóla sem hyrfi þegar minnst varði. Auk þess svaf ég á gólfinu í hreppsbókasafninu, sem staðsett var í stofunni í gamla Læknishúsinu, og þurfti því ekki að leita langt eftir bóklegri þekkingu.
 Við bjuggum hjá öldungum, Pétri og Sigga. Var annar blindur en hinn mállaus. Þessir menn gengu ævinlega í skjannahvítum íslenskum lopapeysum og höfðu lýsandi hvítt hár sem var eins og fordyri að birtunni í sálum þeirra. Sá blindi, Pétur, var veðurathugunarmaðurinn á staðnum og jafnframt mikill draumkönnuður og vildu þessar tvær íþróttir renna nokkuð í einn farveg hjá honum. Siggi sat ævinlega með vandlega krosslagða fætur, neðri vörina klemmda yfir þá efri, eins og til að gæta þess að hann færi ekki óvart að tala, og neri mjúklega saman höndunum svo það minnti á fiska að para sig. Hann hvarf fullkomlega inn í hversdagsleikann og loks varð hann hreinn andi, maður sá hann ekki. Þannig undi hann sér best.
 Þar sem ég lá í svefnpokanum mínum á bókasafninu átti ég til að fletta því sem hendi var næst, ævafornum stílabókum sem á stóð máðum bogadregnum stöfum Stjarnan, tímarit Ungmennafélagsins. Þetta var frá því snemma á þriðja áratug aldarinnar. Allt var handskrifað með undurfínum teikningum eftir einn ritstjórnarmeðliminn, Sigurjón Ólafsson, síðar myndhöggvara, beint á pappírinn. Mig rak í rogastans þegar ég fann þarna sögu eftir Sigga. Ég gat ekki ímyndað mér að frá honum hefði nokkurntíma komið eitt einasta orð. En þarna liðu þau kliðmjúk fram í sögu um dreng sem vill ekki fara að sofa á kvöldin. Hryggir þetta rúmið hans mjög því það sér ekki lengur neinn tilgang í lífinu og strýkur að heiman. Þar sem ég lá á gólfinu á bókasafninu greip þessi saga mig heljartökum. Í morknum kassa uppi á lofti fann ég mynd af pilti á aldur við mig. Hann var klæddur matrósafötum, með sítt svart hár og dreymið blik í augum. Það var Siggi. Sem unglingur hafði hann farið til Reykjavíkur til að stunda nám. Móðir hans sendi mat, hrein föt og huggunarorð með pósti. Hann skrifaði henni ótal saknaðarbréf.

(s. 47-48)