Anna

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1968
Flokkur: 

Endurrituð og endurskoðuð útgáfa gefin út hjá Forlaginu 2001.

Úr Önnu:

Þú hefur erft eitilhörku ömmu þinnar í móðurætt, sagði gamla konan. Hún var rindill snörp og karlmaður að kröftum.

Ég var feitasta, rassmesta og þyngsta barn á skólaskyldualdri og hef bætt á mig holdum síðan, sagði Valla. Nú held ég læknirinn mundi segja ég hefði of þungan merg. Ég vissi strax ég var öðruvísi. En í stað þess að skríða inn í sjálfa mig, og þar hefði verið sko nóg pláss, eins og feitar stelpur gera, vann ég minn einasta stórsigur, á hlédrægninni. Mamma. Ég hef varið ótal mörk á kappleikjum. Og aldrei skal koma á mig bolti, mammapabbi. Nú veiztu það.

Hefurðu aldrei eignazt draum, spurði Katrín. Heldurðu að konunni sé gefinn hraustur líkami til að kistuleggja þar kveneðlið.

Mammapabbi, svaraði Valla, ég er ekki mestan part vikublöð, útvarpssögur og heimilisþættir eða bíó. Draumar eru rugl. Vellíðan er hvergi.

Þessu er ég sammála, sagði gamla konan. Aldrei hefur mér liðið það vel að ég gæti brotið heilann um vanlíðan, og get skilað mér í gröfina án merkingar. Rafmagnið flutti hana hingað. Sé starfsorkan mikil spyr hún aldrei um tilgang, því hún er sjálfri sér nóg án þess að vita það.

Vilduð þið ég væri einhver ungfrúin sótti vandaða bók og hreiðraði letilega um sig á flosklæddum legubekk hjá kamínunni, tók malandi köttinn af sessu og spurði kampana, kattarnóra hvar er himnaríki á jörð, spurði Valla.

Skelfing ertu sniðug og hittin, sagði Katrín. Ég þykist ekki vera mikil fyrirmynd. Samt held ég fáir geti stært sig af að hafa harmað móður sína meira en ég gerði. Hins vegar grætir þú mig.

Hvílíkir mannkostir, sagði Valla.

Vonandi lætur skaparinn rigna við mína útför svo ómak og tár takist af ykkur, sagði Katrín. Það er dáð að hafa drifið sig á jarðarför heiðgul í augunum. Og sama endurtæki ég þótt við pabbi séum upp á kant. Ég kom upp Jónsnafninu hans en missti það, þó enginn þættist hafa séð mig vikna vegna rigningar. Hvert ykkar barnanna hefur síðan gefið mér nöfnu mína.

Nú dettur alveg úr mér tungan, sagði Valla. Lollý sagði þú hefðir vitjað nafns hjá sér. Kauptu þér nöfnu. Ekki framleiði ég hana.

Það er lygimál, svaraði Katrín. Lifandi manneskjur vitja aldrei nafns. Þegar hún sagði ég mundi yngjast tæki ég telpuna, sagðist ég hafa yngzt nóg og vildi heldur bíða eftir þér, ómennið þitt. Aggý vildi ekki krakka héðan. Hún. Henni fannst eins gott að flytja inn börn og láta þau deyja úr hungri einhvers staðar í heiminum. Slíkt yrði vinsælt. Samt keypti hún krakkann.

Ég borga fæði og húsnæði, mammapabbi, svaraði Valla.

Viltu ég knékrjúpi þér, spurði Katrín.

Nei, svaraði Valla. Ég geymi kvittanirnar. Og þú lézt mig tvíborga sömu vikuna. Ég man það sem ég vil muna, sagði hún ógnandi. Hélztu mig vera of fulla. Og í dag var fróðlegt að fylgjast með ykkur. Hefðuð þið bannað mér að borða vegna þess ég kom seint, þá hefði ég sko aldeilis tekið vitni, því samkvæmt samningi er þér skylt að halda matnum volgum í hitahólfinu. Ég borga heitan mat. Og ég skal aldeilis kæra. Og þið skuluð fá sekt.

Heldur sit ég af mér sektina en borga, sagði Katrín. Og síðan hef ég ekkert framar við þig að tala.

(s. 93-95)