Ástarmeistarinn

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2014
Flokkur: 

Um bókina:

Anna og Fjölnir hafa bæði beðið skipbrot í ástinni. Þau leggja allt í sölurnar í leit að meistara sem getur kennt þeim að elska á nýjan leik. Þau tefla blindskák við ástina í þeirri von að máta sjálf sig og leikurinn litast af skömm, sælu, goðsögum, kynlífi og þrám. 

Úr bókinni:

Skammlaust spyrðu hvort ég hafi orðið ástfanginn af sjúklingum mínum eða laðast kynferðislega að þeim, eins og þú orðar það svo faglega, sagði Fjölnir og bætti við: Var það eitthvað fleira fyrir þig, væna mín? Er þetta hluti af heiluninni? Ég hélt að það væri ég sem væri sálgreinandinn. Hann hló og hún hellti yfir bakið á honum olíu sem hvarf inn í húðina, munnvatn hans lak niður í gegnum línóleumgatið, hún snerti rófubeinið og óðaði með hinni hendinni ilmandi lækningablöndu yfir hann, frá hvirfli til ilja.

Starf mitt snýst um að greina á milli þess að vera aðili og karlmaður, sagði hann. Snýst það ekki um eitthvað annað líka? spurði hún og hló.

Hann slakaði smám saman á og hún spurði ekki meir. En svo fór hann að segja henni þvoglumæltur frá því hversu þreyttur hann væri á starfinu, að hann hefði minni áhuga á vandamálum skjólstæðinga sinna en áður, það væri leiði í honum og einhvers konar doði. Jafnvel kennslan fyndist honum vera eilíf endurtekning. Þau þögðu í dágóða stund.

Það hefur að vísu hent mig að hrífast óþarflega mikið af einstaka nemendum eða skjólstæðingum á sálfræðistofunni og ég hef fundið fyrir löngun til að hitta þá fyrir utan vinnutíma. En ég læt það aldrei eftir mér. Þá væri þessu lokið um leið, maður verður að virða þessi faglegu mörk. Hún tók heils hugar undir það og sagðist ekki geta ímyndað sér hvernig það væri að starfa við að meðhöndla líkama fólks og eiga á hættu að finna einhverja óþægilega þrá blossa upp í sér. Um leið og hún sagði það fann hún einmitt fyrir örlítilli sælukennd í brjósti sér því hún naut þess að snerta þennan stóra þétta og hlýlega mann, sér til furðu.

Þessi áhersla á fagmennskuna vakti undireins með þeim löngun til að hittast á óformlegu plani.

(26-7)