Aþena – að eilífu, kúmen!

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2012
Flokkur: 

Um bókina:

Að fermast eða ekki fermast, það er spurningin. En Aþena hefur ekkert val, hún á óuppgerða skuld við Guð sem hún þarf að gangast við. Að öðru leyti stefnir allt í rólegan vetur en þegar hún kynnist Snæju, fjörugum ofurhuga, tekur lífið skyndilega nýja stefnu.

Og spurningin verður: Ræður Aþena við hraðann? Er hún tilbúin fyrir stráka með bílpróf, telpur með kjaft og foreldralaus partí?

Úr Aþenu – að eilífu, kúmen:

Þegar ég er búin að bursta tennurnar inni á stelpuklósetti sem er, afsakið að ég æli, ógeðslegt eftir kvöldið – blautur klósettpappír úti um allt, málningarsubb og sitthvað fleira sem ég hef ekki geð í mér að efnagreina – geng ég fram á litla rekistefnu á ganginum fyrir utan gististofurnar.

Þetta er bara ekki sanngjarnt. Heldurðu að þú getir eitthvað notið þessara verðlauna, vitandi að þau eru óheiðarlega fengin?

Andrea stendur með hendur á mjöðmum  og mænir ásakandi upp á Snæju sem er komin úr kóngulóarsmokkinum og stendur þarna alls óspéhrædd á náttkjól, sem nær varla niður fyrir rass, einum fata.

Æ, get real, ég var nú bara að gera þér greiða ...

Já, fyrirgefðu, þú ert búin að tönnlast á því stanslaust, grípur Andrea fram í, en mér finnst ég nú hafa gert þér aðeins meiri greiða með því að lána þér búning sem vann til verðlauna, ekki þú Snædís. Og ég á þennan búning!

Mig langar mest að láta mig hverfa og þurfa ekki að verða vitni að þessari pínlegu uppákomu en þær standa beint fyrir dyrunum og ég get ekki annað en gengið í áttina til þeirra.

Þarna kemur Aþena, við skulum sjá hvað henni finnst! hópar Andrea og allra augu beinast að mér.

Þetta er það síðasta sem ég vildi. Snæja og Andrea mæna á mig, báðar jafnþrjóskulegar á svip. Ég er drulluhrædd við þær báðar. Andrea er vinkona mín en hún er hrikaleg frekja. Snæja er stærri en ég og sterkari að öllu leyti og auk þess þekkt fyrir að vera frekar hörð í horn að taka.

Aþena hin alvitra, segir Snæja og brosir ísmeygilega.

Ég hef ekki hugmynd um hvað það á að þýða, er hún að hæðast að mér? Reyna að hræða mig? Ég verð að segja eitthvað ef ég á að fá að komast í háttinn, á lífi ...

Ég veit ekki ...

Andrea getur ekki á sér setið.

Sko, það segir sig sjálft að fyrst verið er að veita verðlaun fyrir búninginn, þá eiga verðlaunin að fylgja búningnum!

Leyfðu manneskjunni að segja hvað henni finnst, stoppar Snæja hana ákveðið af.

Ég ... af hverju skiptið þið þessu ekki bara? spyr ég og vona að ég sé þar með laus úr klípunni.

Þær góna báðar á mig eins og ég hafi sagt það heimskulegasta sem hægt var.

Hvernig skiptir maður pítsuveislu fyrir alla fjölskylduna? Eða bíómiða fyrir tvo? Eigum við að fara saman í bíó? gjammar Andrea og bendir á sig og Snæju með uppglennt augu.

Thanks, but no thanks, tautar Snæja.

Ég sagði bara svona ... stama ég.

Eigum við að skipta body-lotioninu í tvo brúsa? hálftæpir Andrea.

Allt í einu er ég orðinn aðalsökudólgurinn hérna! Ég sem var bara að reyna að hjálpa.

Ég tek pítsuveisluna, þú mátt eiga body-lotionið, segir Snæja.

Og hverjum ætlar þú svo sem að bjóða? Eftir því sem ég best veit þá átt þú nú enga almennilega fjölskyldu svo það væri nær að ég fengi þessa pítsuveislu!

Það er eins og Andrea hafi kastað eldsprengju. Snæja starir logandi augum á hana.

Hirtu þetta allt saman, fokking frekjudollan þín! urrar hún og kastar samanvöðluðum búningnum í Andreu áður en hún skálmar burt.

Hvað á Andrea eiginlega við? Hvernig getur hún sagt eitthvað svona andstyggilegt við aðra manneskju, jafnvel þótt það sé Snæja?

(38-40)