Áttunda fórnarlambið

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1987
Flokkur: 

Úr Áttunda fórnarlambinu:

 Hún vissi ekki hvað hún hafði sofið lengi er hún hrökk skyndilega upp með andfælum. Var hana að dreyma eða hvað var að gerast? Var einhver í rúminu? Tinna var á augabragði glaðvöknuð. Það var einhver kominn inn í skúrinn til hennar og ekki nóg með það. Hún fann fyrir höndum undir sænginni og eigandi þeirra þuklaði ótrauður upp eftir lærum hennar. Hún sparkaði ósjálfrátt frá sér. Hver andskotinn var að ske? Héldu þessir menn að þeir gætu gengið í rúm til hennar eins og hún væri eitthvert allsherjargagn? Nei, þó hún eldaði ofan í þá matinn, þá skyldu þeir ekki halda það. Hún hafði dregið vandlega fyrir gluggann, svo myrkvað var inni. Hún gat ekki séð hver þetta var.
 - Uss.
 Hún sparkaði aftur, hálfu fastar en fyrr. Við það rak maðurinn upp hið mesta öskur. Hún hlaut að hafa lent á viðkvæmum stað. Allt í einu var hurðinni hrundið upp og í dyrunum stóð Jón. Það fór ekkert á milli mála, það lá við að hann fyllti út í dyrnar.
 - Hvur djöfullinn gengur hér á?
 Mannveran sem áður hafði ætlað í rúm til Tinnu hnipraði sig saman og reyndi að láta lítið fyrir sér fara.
 - Hvað ert þú að gera hér?
 Jón stikaði inn gólfið stórum skrefum og tók með annarir hendi manninn upp af gólfinu. Þetta var Björn. Hann var nú heldur rislægri en áður og augun stóðu á stilkum í höfuðkúpunni.
 - Var hann að ónáða þig?
 Tinna var að byrja að ná jafnvægi aftur. Réttlát reiði hafði gripið hana en hún gat varla varist brosi er hún sá Björn dinglandi í hendi Jóns.
 - Já, óneitanlega. Mér finnst algjör óþarfi að halda að maður sé eitthvert allra gagn, þó ég sé að elda ofan í liðið hérna.
 Jón kímdi örlítið. Hann leit sposkur á Tinnu.
 - Þú verður að vera dómari í þessu máli. Hvað á ég að gera við þennan mann? Hengja hann eða skera?
 Björn braust um í höndum Jóns. Hann bölvaði og ragnaði og sendi Tinnu óblítt augnaráð.
 - Hvorugt. Hentu honum út ef þú vilt vera svo vænn.
 Jón lét ekki segja sér það tvisvar. Hann opnaði dyrnar og þeytti Birni frá sér af afli. Því fylgdu nokkur vel valin orð.
 Nú fyrst tók Tinna eftir því að Jón var á stuttum nærbuxum einum fata og þær skýldu ekki miklu. Bringan var kafloðin og handleggir og fótleggir einnig þaktir dökku hári. Hárvöxturinn á bringunni náði eins langt niður og hún sá, hann hlaut að ná saman. Hún gat varla stillt sig um að stara á hann. Hann var óneitanlega karlmannlegur.
 - Jæja, vinan. Þú ættir að venja þig á að læsa að þér á kvöldin, þetta er of mikil freisting fyrir suma.
 Tinna roðnaði.
 - Þakka þér fyrir. Hún steig fram úr rúminu til að loka á eftir honum, en hann stóð kyrr. Tinna hugsaði ekki út í hve náttkjóllinn hennar var næfurþunnur. Hann skýldi ekki miklu. Hún vissi ekki hvað hún átti að segja og stamaði aftur þakklætisorð.
 - Það var indælt að þú skyldir koma. Mér datt ekki í hug að læsa að mér. Það flaug ekki að mér að nokkur myndi ónáða mig, en það er öruggt mál að ég læsi eftirleiðis. Ég segi enn og aftur, takk.
 Allt í einu var Jón kominn til hennar. Hann þrýsti henni eldsnöggt að sér. Henni snarbrá, en blóðið í æðum hennar tók að ólga. Hún fann fyrir karlmennsku hans. Þetta var aðeins augnablik. Hann sleppti henni jafnsnöggt og hann hafði tekið utan um hana.

(s. 60-62)