Barnið sem hrópaði í hljóði

Barnið sem hrópaði í hljóði
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2019
Flokkur: 

Eddu leiðist aðgerðaleysi eftirlaunaáranna svo hún ræður sig sem au-pair til læknishjóna í Skerjafirði – en andrúmsloftið í húsinu er grunsamlega rafmagnað. Dularfullar mæðgur sem virðast í felum fyrir sínum nánustu í íbúð Iðunnar, dóttur Eddu, vekja líka forvitni hennar. Á sama tíma ríkir ófremdarástand á heimili í borginni þar sem fjölskyldufaðir heldur eiginkonu og börnum í heljargreipum. 

Barnið sem hrópaði í hljóði er fjórða bók Jónínu Leósdóttur um Eddu á Birkimelnum, glímu hennar við flókin sakamál og samskipti hennar við fjölskyldu sína sem stundum eru síst einfaldari.

Úr bókinni

Edda spratt fram úr rúminu, ánægð með lífið, því skyldan kallaði. Það hafði átt svo illa við hana að hringla skuldbindingalaus um á þessum svokölluðu eftirlaunum. Hún hafði alla tíð unnið utan heimilisins, líka þegar Iðunn og Snorri voru lítil, og vildi hafa nóg að gera.
  Það pirraði hana ekki einu sinni að verða nú á nýjan leik að stunda Vesturbæjarlaugina í kraðakinu snemma á morgnana fremur en í rólegheitunum þegar skrifstofufólk var farið til vinnu. Þetta var hennar gamli góði gír. Áratugum saman hafði hún farið eldsnemma á fætur á virkum dögum, drifið sig í sund og marað smástund í heitum potti áður en hún gekk rösklega niður í bæ.
  Núna arkaði hún ekki niður í miðbæ í bókabúðina heldur út í Skerjafjörð og það án þess að blása úr nös. Hún var betur á sig komin, næstum sextíu og átta ára gömul, en tæplega fertugur sonur hennar sem sat löngum stundum fyrir framan tölvu og skrifaði og þýddi bækur. Snorri virtist gjörsneyddur allri hreyfiþörf.
  Edda óttaðist að Snorri yrði enginn bógur í að elta skríðandi eða kjagandi krakka út um allar trissur en á það myndi reyna á næsta ári. Þeir Viktor, sambýlismaður hans, áttu von á barni með lesbíupari og ef allt gengi að óskum var meiningin að búa fljótlega til annað barn. Það yrðu gríðarleg viðbrigði fyrir mann, sem stóð helst ekki upp frá skrifborðinu nema til að ná sér í kaffi, að þurfa að sinna tveimur smábörnum. Þar að auki bjuggu strákarnir í risíbúð svo þeir yrðu að bera börnin upp og niður ótal tröppur.

(33-34)