Bítlaávarpið

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2004
Flokkur: 

Úr Bítlaávarpinu:

Kafli eitt

INNGANGUR ÞAR SEM SÖGUMAÐUR MINNIR Á TILVERU SÍNA

Vofa gengur laus um götur heimsins, vofa Bítlanna.
 Það er engu líkara en veröldin búi sig undir brjálað trommusóló.
 Í stórum herskörum birtast krakkar sem engu hafa að tapa nema sveindómi sínum og meydómi.
 Foreldrar og skólastjórar, prestar og rakarar, í stuttu máli, allir sem óttast um sinn hag huga nú að heilögu bandalagi.

 ...

Einhvern veginn þannig hófst Bítlaávarpið, en það átti að leysa öll önnur ávörp af hólmi. Áramótaávarpið, Kommúnistaávarpið og svo auðvitað skólareglurnar.
 Þær héngu innrammaðar uppi á vegg við hliðina á grænu töflunni í skólastofunni. Í þeim stóð ekkert af viti, enda nennti ég aldrei að lesa þær.
 Eini kosturinn við þær var að ég sá andlit Helgu speglast í glerinu. Þaðan gat ég dregið hana út með stækkunargleri hugans, þó að nú viti ég ekkert hvar hún er.
 Það var ég, Jóhann Pétursson, sem samdi þetta ávarp, en ég kynni mig strax hér í upphafi því ég hef áður komið við sögu á blöðum þessa höfundar.
 Hann gerir þó ekkert annað en að skrifa það sem ég segi en fær af því allan heiðurinn og hirðir ritlaunin sem með réttu ættu að renna óskipt til mín.
 En þannig gerast kaupin á eyrinni.
 Við sögupersónurnar höfum engan rétt. Við gerum alls kyns asnastrik og svo koma höfundarnir í blöðin og segja um okkur enn asnalegri hluti. Við ættum kannski að fara í mál og kæra einsog allir aðrir í þjóðfélaginu.
 Þá mætti lesa í blöðunum: Fimmtán sögupersónur kæra höfund, og svo væru haldnar ráðstefnur: Sögupersónur þinga á Hótel Sögu. Hvar ættu þær annars að þinga?
 Ég sé Bjart í Sumarhúsum koma á leigubíl með tveimur sköllóttum mönnum sem báðir segjast hafa búið hann til, en hann er þeim alveg ósammála um það, og Hamlet er ein taugahrúga á barnum, kolringlaður á öllum sem hann hefur verið.
 Og þannig mætti lengi telja.
 Ég vona að þið fyrirgefið mér þessa framhleypni, en ég hef mátt dúsa ofan í skúffu, ég veit ekki hvað lengi. Þangað var mér stungið þegar höfundurinn nennti ekki lengur að hlusta á mig. Þó hafði ég alls ekki lokið máli mínu.
 Ég veit vel að það þætti miklu flottara að koma út úr skápnum, en ég hef ekki verið inni í neinum skáp, bara ofan í skúffu, gamalli skrifborðsskúffu og þaðan rís ég, einsog vofa úr náttfötum tímans, til að segja ykkur frá.

(s. 7-8)