Bjarmalönd

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2021
Flokkur: 

Um bókina

Bjarmalönd er upplýsandi svipmynd af heimshluta sem fjallað er um í næstum hverjum fréttatíma, hvort sem um er að ræða stríðið í austurhluta Úkraínu eða mótmæli gegn Lúkasjenkó í Hvíta-Rússlandi, átök um Nagornó Karabak eða ráðgátuna Pútín.

Valur Gunnarsson, sagnfræðingur, rithöfundur og blaðamaður, drakk á unga aldri í sig fréttir af stjörnustríðsáætlunum og kjarnorkuvá, og kjarnorkuslysið í Tsjernóbíl virtist staðfesta að allt gæti gerst. Svo féll múrinn, Sovétríkin leystust upp og friðvænlegra virtist um hríð. Á landakortinu birtust ýmis ríki þar sem risaveldið hafði áður verið: Eistland, Lettland og Litáen, Úkraína og Hvíta-Rússland, ný -stan-lönd í Mið-Asíu og átakasvæði við Kákasusfjöll. Að ógleymdu Rússlandi sjálfu.

Ný heimsmynd sótti á hugann. Undir lok síðustu aldar var Valur við nám í Rússlandsfræðum í Finnlandi og fór loks yfir landamærin til Rússlands, í fyrsta sinn af mörgum. Síðan hefur hann búið í Eistlandi og Rússlandi og heimsótt flest hinna fyrrum Sovétríkja. Veturinn og vorið 2020 dvaldi Valur í Úkraínu á tímum kófs, og heimsótti þá m.a. Hvíta-Rússland rétt fyrir uppþot. Bókin er afraksturinn af þessari dvöl og ferðalögum, fræðistörfum og greinaskrifum undanfarinna 20 ára.

Bókin kom út á pappír, sem rafbók og hljóðbók.

Úr Bjarmalöndum

Leyniskyttur á þökunum
Kyiv, nóvember 2013 - febrúar 2014

Á Maidan-torgi standa enn kerti við andlitsmyndir hinna himnesku hundruða sem létu lífið í byltingunni. Ofar í götunni er búið að grafa fyrir safni um viðburðina, en eins og margar aðrar framkvæmdir hefur bygging þess tafist þar sem nýta þurfti alla fjármuni í stríðsreksturinn.

Janúkóvitsj sótti fylgi sitt helst til heimahéraðanna í austri þar sem áhrif Rússa eru mikil. Þegar hann varð forseti árið 2010 gerði hann samning um að þeir fengju að halda flotastöð sinni á Krímskaga í hið minnsta tuttugu og fimm ár í viðbót gegn því að selja Úkraínumönnum ódýrt jarðgas. Sambandið við rússa var ekki öllum til geðs og á sama tíma var Júlíu Tímósjenkó fyrrum forsætisráðherra stungið í fangelsi fyrir að hafa gert annan jarðgassamning við Rússa á sinni valdatíð.

Þrátt fyrir þetta bauðst Úkraínu viðskiptasamningur við ESB sem hefði gert Úkraínumönnum kleift að ferðast um Evróup án vegabréfsáritunar og samræma lagaumhverfið. Margir töldu að eina leiðin til að vinna bug á hinni landlægu spillingu væri að koma landinu undir Evrópulög. Samninginn átti að undirrita þann 21. nóvember en þá skipti Janúkóvitsj skyndilega um skoðun og kaus nánara samband við Rússland í staðinn. Pútín lofaði ódýrri olíu en rússar voru í þann mund að stofna Evrasíusambandið ásamt Kasakstan og Hvíta-rúss og vildu ólmir hafa Úkraínu með.

Fólk flykktist á Maidan-torg til að mótmæla forsetanum eins og hþað hafði gert tíu árum áður en nú með Evrópufána í stað appelsínugulra. Viku síðar réðst lögregla á mótmælendurna og margir lentu á spítala. Lögregluofbeldið hafði þveröfug áhrif við það sem ætlað var, mótmælin stórjukust og í byrjun desember var um ein milljón manna stödd á torginu. Einn af leiðtogunum var fyrrum Eurovision-sigurvegarinn og þingkonan Ruslana, sem söng þjóðsönginn á klukkutíma fresti á torginu og svaf stundum ekki nema tvo tíma á nóttu.

(bls. 287-8)