Blóð hraustra manna

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2013
Flokkur: 


Sjálfstætt framhald kvikmyndarinnar Borgríki (2012).Um bókina:Gunnar situr inni eftir misheppnaðan glæp og hyggur á hefndir.Hannes er ungur og metnaðarfullur lögreglumaður sem dreymir stóra drauma.Leiðir þeirra liggja saman í því sameiginlega markmiði að fletta ofan af hvíslaranum – svikara innan lögreglunnar sem er grunaður um að vara harðsvíraða glæpamenn við þegar lögreglan er á hælum þeirra.Úr Blóði hraustra manna:Í fyrstu virtist hljóðið koma langt að en smám saman hækkaði það og varð greinilegra. Þetta voru tónar. Þetta var símhringing. Hannes rumskaði í rúminu. Hringingin vakti hann af nætursvefninum. Hann opnaði augun. Inni í svefnherberginu var svartamyrkur. Guðrún lá steinsofandi ofan á honum.Hannes var rétt nýkominn til meðvitundar þegar Katrín byrjaði að gráta. Síminn hafði líka vakið hana og þá vaknaði Guðrún sömuleiðis með hljóðum. Hún trúði þessu varla. Það var einungis hálftími síðan henni hafði tekist að svæfa Katrínu og þá hringdi síminn, á einhverjum óguðlegum tíma. Meira að segja Jóga vissi að þetta var óvanalegt, stökk fram úr rúminu og hljóp fram á gang. Hannes flýtti sér að sækja símann. Það var verið að hringja í hann frá löggunni. Hann leit á klukkuna á náttborðinu. Hún var 5:13.„Já?“ svaraði hann.„Fyrirgefðu að ég skuli hringja svona seint – eða svona snemma ef út í það er farið – en þín er óskað á Níunni,“ sagði glaðbeittur maður á hinum endanum.„Veistu hvað helvítis klukkan er?“ spurði Hannes svefndrukkinni röddu.„Er þetta ekki Hannes Borg Hannesson? Nýr yfirmaður innra eftirlitsins?“„Jú.“„Ég heiti Magnús og er fangavörður hér á Níunni. Þín er óskað tafarlaust.“„Segðu manneskjunni að ég ætli að koma heim til hannar og kyrkja hana,“ hvíslaði Guðrún hálfsofandi og staulaðist fram úr til að svæfa Katrínu á nýjan leik.„Bíddu aðeins,“ sagði Hannes í símann og fór fram í eldhús til að pirra Guðrúnu ekki enn meira. Úti var allt með kyrrum kjörum og enginn á ferð. Hannes spurði Magnús hvers vegna í ósköpunum það væri verið að vekja hann um miðja nótt.„Ég biðst afsökunar á þessu en ég hefði ekki hringt nema það væri afar mikilvægt.“„Hvað er svona mikilvægt að það megi ekki bíða ögn sómasamlegri tíma?“„Gunnar Gunnarsson. Kannastu við hann?“„Rithöfundinn?“ spurði Hannes, ennþá hálfsofandi.„Nei.“ Magnús hló hátt í símann. „Ekki rithöfundinn, heldur glæpamanninn.“„Nei.“„Nei, það er svo sem skiljanlegt. Gunnar var aldrei sakfelldur fyrir neitt. Þú varst líka í kynferðisbrotadeild, ekki satt? En það var sumsé sterkur orðrómur hér um árið að Gunnar þessi væri nokkurs konar glæpakóngur á Íslandi, eins langt og það nær auðvitað. Ísland er ekki beint Ítalía þegar kemur að skilpulagðri glæpastarfsemi, þótt hún hafi auðvitað snaraukist á undanförnum …“„Viltu koma þér að efninu?“ greip Hannes fram í fyrir fangaverðinum, pirraður á því að vera á nærbuxunum einum saman inni í eldhúsi klukkan fimm um nótt. Það var nógu erfitt að fá fullan svefn þó að símtöl um miðjar nætur bættust ekki við.„Já, fyrirgefðu. Málið er að téður Gunnar réðst inn í barnaafmæli fyrir rúmri viku síðan undir áhrifum ýmissa efna og reyndi að myrða mann. Við settum hann í einangrun hérna hjá okkur og hann var á miklum niðurtúr fyrstu dagana og er núna í fráhvörfum. Ég veit ekki hvort þú hefur séð sjúklinga í slíku ástandi, en það er ekki falleg sjón. […] Allavegana, gunnar hefur mestmegnis verið í einangrun hjá okkur síðustu vikuna vegna líkamlegs og andlegs ástands hans, en þegar hann rankaði við sér áðan leið honum ögn betur og vildi fá að tala við yfirmann innra eftirlitsins. Mér skilst að það sért þú. Til hamingju með nýja starfið.“(37-9)