Charles Bukowski

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1996

Ljóð eftir Charles Bukowski í þýðingu Jóns Kalmans Stefánssonar sem einnig ritar inngang um skáldið.
Bjartur og frú Emilía (sérrit) nr. 2 1996.

Úr Charles Bukowski:

ekki láta sjá þig, en ef þú kemur ...

auðvitað, ég verð heima nema ég sé að heiman
ekki banka ef ljósin eru slökkt
eða þú heyrir raddir eða þá
ég gæti verið að lesa Proust
ef einhver renndi Proust undir hurðina
eða einu af beinum hans í súpuna mína,
og ég get ekki lánað aura
símann
eða leifarnar af bílnum mínum
en þú getur fengið dagblaðið frá í gær
gamla skyrtu eða samloku með skinku
eða sofið í sófanum
ef þú æpir ekki á nóttinni
og þú mátt tala um sjálfa þig
það er bara eðlilegt;
erfiðir dagar elta okkur ætíð uppi
nema ég er ekki að reyna að koma upp börnum
til að senda í Harvard
eða kaupa veiðilendur
ég spenni bogann ekki hátt
ég reyni bara að halda mér lifandi
ögn lengur;
þannig að ef þú bankar einhverntíman
og ég kem ekki til dyra
og það er engin kona hér inni
þá er ég kannski kjálkabrotinn
og leitandi að vír
eða ég er að eltast við fiðrildin í
veggfóðrinu,
ég á við, ef ég kem ekki til dyra
þá kem ég ekki til dyra, og skýringin er sú
að ég er enn ekki reiðubúinn til að drepa þig
eða elska þig, ekki einu sinni sætta mig við þig,
sem þýðir að mig langar ekki til þess að tala
ég er upptekinn, brjálaður, kátur
eða kannski að festa upp reipi;
þannig að jafnvel þó ljósin séu kveikt
og þú heyrir hljóð
í líkingu við andardrátt eða bænir eða söngl
útvarp eða teningakast
eða ritvél -
farðu, þetta er ekki dagurinn
nóttin, stundin;
þetta er ekki fávísi dónaskaparins,
ég vil ekki gera neinum mein, ekki einu sinni flugu
en stundum safna ég þesskonar sönnunargögnum
að það þarf tíma til að rannsaka þau,
og blá augun þín, séu þau blá
og hár þitt, ef þú ert hærð
eða hugsun þín - fá ekki að koma inn
fyrr en reipið er skorið eða hnýtt
eða fyrr en rakhnífurinn hefur fært mér
nýja spegla, fyrr en sárið er
gróið eða opið
            að eilífu.