Dætur regnbogans

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1992
Flokkur: 

Úr Dætrum regnbogans:

 Margrét hrökk upp. Hún hafði sofnað út frá hugleiðingum sínum. Í fyrstu vissi hún ekki hvað hafði vakið hana en svo sá hún myndarlega konu á miðjum aldri standa fyrir innan dyrnar. Eitt andartak varð Margrét svo hissa að hún kom ekki upp nokkru hljóði.
 Kona þessi var tíguleg ásýndum, bláklædd með hvíta skýlu um höfuðið. Dökkt og mikið hár sem náði langt niður á bak kom undan skýlunni. Konan var myndarleg og það stafaði af henni einhverri hlýju. Margrét hélt að sig væri að dreyma. Hún hafði aldrei séð konuna fyrr. Margrét var að því komin að spretta fram úr rúminu þegar konan lagði fingur á varir sér. Hún gekk hljóðlega að rúminu. Margrét starði á hana.
 Konan hvíslaði:
 - Ég heiti Álfheiður, við skulum ekki vekja sýslumanninn. Halldóra vitra bað mig að sækja þig.
 Margrét steig hljóðlega fram úr rúminu. Fyrst Halldóra sendi eftir henni varð hún að fara. Páll rumskaði örlítið. Álfheiður beygði sig yfir rúmið og lagði örþunnan dúk yfir andlit sýslumannsins. Hún sagði með sinni mjúku rödd:
 - Þetta gerir honum ekkert til, en ég verð að vera viss um að hann sofi þangað til við komum til baka.
 Margrét gerði enga athugasemd. Hún flýtti sér að klæðast og læddist fram á eftir Álfheiði sem gekk hiklaust fram baðstofuna innan um sofandi fólkið. Það var undarleg kyrrð og hvergi heyrðist hljóð.
 Margrét fylgdi konunni út fyrir bæinn. Þar lá seppi og steinsvaf.
 Þegar þær komu í hvarf frá bænum sá Margrét hvar Halldóra sat á þúfu og beið. Hún stóð upp þegar hún sá þær koma.
 - Sæl Margrét mín. Fyrirgefðu ónæðið, en mig vantar hjálp. Ég þarf að gera dálítið sem ég hef aldrei gert fyrr og ég er ekki viss um að ég geti það án aðstoðar.
 Margrét horfði á hana. Hana langaði til að spyrja um svo margt en hún kunni ekki við það þar sem Álfheiður stóð hjá þeim. Hún varð að treysta Halldóru.
 Konurnar gengu í átt að sjónum og niður í fjöruna. Margrét var sem í draumi. Þetta var allt svo óraunverulegt. Hér gekk hún þessa hljóðu nótt og það var eins og allt væri í álögum. Hún starði á bergið fram undan. Þetta var ekki lengur venjulegt berg. Þarna voru reisuleg hús og kirkja. Húsin voru stór og á engan hátt lík þeirra húsum. Margrét kleip sig í handlegginn. Átti hún að trúa því að hún væri vakandi?
 Þær gengu að einu húsinu og konan lauk upp hurðinni. Inni fyrir var allt hreint og fágað og bar vott um ríkidæmi, eða svo fannst Margréti að minnsta kosti. Þarna voru fagrir munir, hlutir sem hún var að líta í fyrsta sinn. Halldóra sneri sér að henni.
 - Sonur hennar er mjög veikur. Við verðum að skera hann upp.
 Margrét starði á hana. Hvað meinti Halldóra eiginlega? Álfheiður kinkaði kolli.
 - Hann deyr ef ekkert verður að gert. Við erum ráðalaus. Maðurinn minn er hjá honum núna.
 Halldóra tók yfir herðarnar á Margréti.
 - Margrét mín, ég vona að þú þolir þetta. Þú skalt einskis spyrja núna. Hjálpaðu mér bara.
 Margrét kinkaði kolli. Hún var svo dolfallin yfir öllu þessu að hún kom ekki upp nokkru orði.

(s. 139-140)