Dagleiðin langa inn í nótt : leikrit í fjórum þáttum

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1983

Eugene O´Neill: Long Day's Journey Into Night.

Úr Dagleið langa inn í nótt:

CATHLEEN: (bjánalega hissa). Hefurðu fengið þér af meðalinu? Það gerði þig svo skrýtna frú. Ef ég vissi ekki betur myndi ég halda að þú hefðir kíkt í glas.

MARY: (dreymandi). Það drepur sársaukann. Þú ferð afturábak þangað til að þú ert komin svo langt að hann nær ekki til þín. Það eina sem er raunverulegt er liðna tíðin þegar maður var hamingjusamur. (Hún þagnar - síðan breytist hún í öllu látæði sínu og andlitssvipurinn líkt og orð hennar hefðu verið seiðþula sem kallaði aftur fram hamingjuna. Hún sýnist yngri. Það ljær henni blæ af saklausri klausturskólastúlku sem leikur um hana, og hún brosir feimnislega.) Ef þér finnst herra Tyrone laglegur núna, þá hefðirðu átt að sjá hann þegar ég hitti hann fyrst. Hann hafði orð á sér fyrir að vera einn af glæsilegustu mönnum landsins. Stúlkurnar í Klaustrinu, sem höfðu séð hann leika, eða séð ljósmyndirnar af honum, töluðu í óráði um hann. Þú veizt að hann var þá svo mikill draumaprins og kvennagull leiksviðsins. Konurnar hópuðust að útgöngudyrum leikaranna, til þess eins að sjá hann koma út. Þú getur rétt ímyndað þér hvað ég var spennt þegar faðir minn skrifaði mér um það að hann og James Tyrone væru orðnir vinir, og að ég myndi hitta hann þegar ég kæmi heim í páskafríinu. Ég sýndi öllum stelpunum bréfið og það var ekki lítið sem þær voru öfundsjúkar! Fyrst fór faðir minn með mig að sjá hann leika. Það var leikrit um frönsku stjórnarbyltinguna og aðalhlutverkið það var aðalsmaður. Ég hafði ekki augun af honum. Ég grét þegar honum var varpaði í fangelsið - og svo varð ég bálvond út í sjálfa mig af því að ég var svo hrædd um að verða rauð um augun og nefið líka. Faðir minn hafði sagt að við myndum fara á bak við í búningsherbergið hans strax eftir sýninguna, sem við og gerðum.

(s. 94-95)