Dalaprinsinn

Útgefandi: 
Staður: 
Akureyri
Ár: 
1967
Flokkur: 

Af bókarkápu:

Dalaprinsinn er ástarsaga þeirra Lindu í Dalsmynni og Hlynar í Fagradal. Dalaprinsinn er líka saga brúarsmiðanna, sem dvelja sumarlangt við brúarsmíði hjá Dalsmynni. Dalaprinsinn segir frá því, hvernig Drífa, matráðskona, og Siggi og Geiri, brúarsmiðir, beita öllum ráðum til þess að kenna hinu saklausa og fallega sveitabarni, Lindu litlu í Dalsmynni, miður hollar lífsvenjur og lokka hana að lokum til Reykjavíkur, þar sem allt sígur á ógæfuhlið. Dalaprinsinn segir frá því, hvernig æskuástin ber að lokum sigur úr býtum, og bjargar Lindu heim í dalinn til sannrar hamingju með Hlyni, æskuvini sínum.

Úr Dalaprinsinum:

Liðið er langt fram yfir miðnætti, er Linda læðist hægt og hljóðlega inn í húsið og beina leið til svefnherbergis síns. Bíóferðin tók miklu lengri tíma, en hún gerði ráð fyrir í upphafi, og nú eru allir sjálfsagt sofnaðir fyrir löngu á þessu reglusama heimili. Drífa gat ekkert rætt við hana, meðan á sýningunni stóð, því hún var auðsjáanlega með allan hugann við bíómyndina. En sjálf hafði Linda haft lítið gaman af að horfa á það, sem þar fór fram. Myndin gekk aðallega út á afbrot og leynilögreglu, og það fannst Lindu fremur hrollvekjandi en skemmtilegt. En Drífa var auðsjáanlega mjög spennt og hrifin af sýningunni. Loks er sýningunni lauk, ætlaði Linda strax heim, en Drífa var nú ekki aldeilis á því að missa af henni við svo búið. Hún sagði að Linda yrði nú fyrst að koma heim með sér, hún þyrfti svo margt að spjalla við hana. Og Linda komst alls ekki undan því að fara heim með Drífu.

(s. 138)