Danskennarinn snýr aftur

danskennarinn snýr aftur
Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2010

Um bókina

12. desember árið 1945 lendir bresk herflugvél á flugvellinum í Bucheburg. Farþeganum er ekið til fangelsisins í Hameln og daginn eftir eru níu karlar og þrjár konur tekin af lífi með hengingu.

Í október árið 1999 finnst líkið af fyrrverandi lögregluþjóni, Herbert Molin, fyrir utan afskekkt heimili hans í Härjedal á Jamtalandi. Allt bendir til að hann hafi verið myrtur á úthugsaðan og óhugnanlegan hátt. Á stofugólfinu í húsi hans eru blóðug spor sem lögreglunni finnst mynda undarlegt munstur: Einhver hefur dansað tangó við fórnarlambið ... Smám saman verður ljóst að til eru þeir sem hafa ekki áhuga á að morðið sé rannsakað. Skuggar fortíðarinnar teygja sig æ lengra inn í þétta skógana í Härjedal.

Úr bókinni

   Klukkan ellefu var öllum undirbúningi lokið. Davenport hafði ákveðið að byrja á kvenfólkinu. Þar sem klefar þeirra voru næstir gálganum myndu þær ekki komast hjá því að heyra þegar hlerinn opnaðist. Hann vildi hlífa þeim við því. Davenport tók ekkert tillit til þess hvað einstaka fangar höfðu brotið af sér. Það var bara háttvísi hans sjálfs sem krafðist þess að hann byrjaði á konunum.
   Allir sem ætluðu að vera viðstaddir voru komnir á sinn stað. Davenport kinkaði kolli til Stuckfords sem gaf einum fangavarðanna merki. Nokkur skipunarorð heyrðust, það skrölti í lyklum, klefadyr opnuðust. Davenport beið.
   Irma Grese var fyrst. Eitt andartak helltist undrunartilfinning yfir kaldan heila Davenports. Hvernig hafði þessi ljóshærða og magra, tuttugu og tveggja ára gamla kona getað barið fanga til bana í útrýmingarbúðunum í Belsen? Hún var varla annað en barn. En þegar dauðadómurinn yfir henni féll hafði enginn efast. Hún var skrímsli og nú átti hún að deyja. Hún horfði í augu hans og leit síðan upp á gálgann. Fangaverðirnir leiddu hana upp tröppurnar. Davenport færði fætur hennar beint yfir fallhlerann og setti reipið um hálsinn um leið og hann fylgdist með því að MacManaman gerði engin mistök með leðurólina sem hann strengdi utan um fætur hennar. Rétt áður en Davenport dró hettuna yfir höfuð hennar heyrði hann rödd hennar, sem varla var greinanleg, segja eitt orð.
   - Schnell!

(s. 13)