Dauðarósir

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1998
Flokkur: 

Úr Dauðarósum:

 - Er hún dauð? spurði hann. Halló, kallaði hann, halló. Fröken. Halló.  Henni fannst eins og hann væri að kalla á þjónustustúlku. Hann hafði gert svolítið af því á Borginni fyrr um kvöldið. Rétti upp höndina og kallaði út í salinn. Henni hafði þótt það óþægilegt, eins og hann væri að reyna að ganga þannig í augun á henni. Hún hafði litið fram hjá því þá en ekki núna.
 Stúlkan var augsýnilega látin. Hún bæði sá það og fann það. Hún gekk alveg upp að henni og beygði sig niður og leit framan í hana. Þykkir dökkbláir augnskuggar undir svörtum augabrúnum, talsverður roði á kinnbeinunum, djúprauður varalitur. Stúlkan var kannski nýskriðin yfir tvítugt. Hún var með lokuð augun.
 Allt við hana var dautt. Líkami hennar var grannur og náhvítur. Hún lá á hliðinni í litlum boga og sneri bakinu að þeim. Handleggirnir voru mjóir eins og blómastilkar og lágu upp með höfðinu. Það mátti telja í henni rifbeinin sem sköguðu út undan strekktri húðinni. Fæturnir voru grannir og langir. Hún var svarthærð með hár niður á herðar. Það var skítugt og illa hirt. Á rassinum var rauður blettur, húðflúr með stafnum J.

(s. 10)

 Hann stóð á planinu framan við torfhúsin og varð uppnuminn af hinni merku sögu staðarins. Jafnvel snortinn. Hann hafði ekki komið áður til fæðingarstaðar Jóns Sigurðssonar og hugur hans leitaði eftir hinni brotakenndu vitneskju sem hann hafði um Jón.
 Erlendur hrökk upp úr þankaganginum. Sigurður Óli var orðinn óþolinmóður og lagðist á bílflautuna. Er hann að flauta á mig, helvítið, hugsaði hann með sér og leit í átt til Sigurðar Óla, sem veifaði honum að drífa sig.
 - Af hverju vildirðu ekki skoða bæ Jóns? spurði hann Sigurð Óla, þegar þeir voru lagðir af stað aftur, og var forvitinn að vita svarið.
 - Það var nóg að sjá þetta út um gluggann, svaraði Sigurður Óli.
 - Þetta! Meinarðu eins og það sé nóg að sjá hlutina í sjónvarpinu? Þú veist að þetta er raunverulegur staður. Hann er ekki tilbúningur, ekki auglýsing, ekki rokkmyndband.
 - Út í hvaða kjaftæði ertu nú kominn? Þótt ég hafi ekki nennt að skoða einhverja torfhleðslu er ég þá slefandi aumingi?
 Þeir óku áfram og þögðu og hugsaði hvor sitt þar til Sigurði Óla fannst hann þurfa að koma að sínu sjónarmiði.
 - Ég held ekki að þetta mál okkar hafi neitt með Jón Sigurðsson að gera, sagði hann. Morð eru ekki framin á Íslandi með þessum hætti. Morð eru ekki plönuð og líkin sett á áberandi staði með einhverri dýpri merkingu og leiðsögn. Morð hér eru framin í stundarbrjálæði. Ölvímu flest. Þau eru aldrei táknræn. Það er engin dýpri merking í þeim. Enginn sannleikur. Þau eru sóðaleg og ljót og tilviljunarkennd. Og þau hafa aldrei neitt með Jón Sigurðsson að gera.
 - Hvað hefurðu svona á móti Jóni Sigurðssyni?
 - Ég er bara ekki inni á þessari sögudýrkun og ljóðadýrkun og persónudýrkun og þjóðernisdýrkun, þessari endalausu dýrkun á landinu og þjóðinni og fortíðinni. Þetta er úrelt kjaftæði. Einstaklingar ráða ekki gangi sögunnar þótt til séu sterkir leiðtogar. Öll fortíðardýrkun vinnur gegn framförum og dregur kraft úr mönnum. Líttu á sjálfan þig. Kjaftfullur af þjóðlegum fróðleik, ást á sögu landsins og horfnum leiðtogum lífsins, Jóni og Hannesi Hafstein, hvað hann var nú glæsilegur, eins og kerlingarnar segja, og guð má vita hvað, og þú hangir á þessu, sífellt að leita til fortíðar, til þess sem var og kemur aldrei aftur og getur aldrei orðið betra.
 Erlendur horfði furðu lostinn á félaga sinn, sem hélt áfram.
 - Verst er að þetta fortíðarkjaftæði dregur úr þér allan mátt. Það smitar út í einkalífið. Þú ert fastur í þinni eigin persónulegu fortíð og getur ekki eða vilt ekki slíta þig frá henni. Hún dregur úr þér allan kraft. Heldurðu að þú værir ekki fyrir löngu orðinn yfirmaður hjá lögreglunni ef þú hristir af þér slenið? En þú vilt það ekki. Þú vilt sitja eftir í fortíðinni og trega það sem aldrei var neitt hvort sem er. Sitja eftir og trega og leyfa framtaksleysinu að kæfa þig. Hlutirnir geta aldrei orðið betri en þeir voru og þess vegna er best að ...
 - Heyrðu, hvaða, hvern and ...? stundi Erlendur loks. Hann hafði ekki setið undir öðrum eins lestri frá Sigurði Óla fyrr eða nokkrum öðrum ef út í það var farið. Hvað kemur þér við mitt einkalíf? Þú skalt ekki halda að þú getir krukkað í mér með þinni vasabókarsálfræði frá Bandaríkjunum eða nýaldarbulli. Hvaða leyfi hefur þú ...?
 - Ég hélt þú vildir heyra af hverju ég nennti ekki að míga utan í Jón.

(s. 84-86)