Eftirleikur

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1999
Flokkur: 

Úr Eftirleik:

 - Bryndís, ég er hrædd í þessu húsi.
 - Það er ekkert að óttast.
 - Ég er samt hrædd og ég veit ekki af hverju. Ég var hérna þegar ég var lítil stelpa. Ég man ekkert eftir því en samt líður mér ekki vel.
 Bryndís settist. Henni var orða vant. Ef til vill myndi Viktoría fá bernskuminnið á þessum vikum. Hún vissi varla hvort það var gott eða slæmt.
 - Þú varst hérna þegar þú varst lítil, en þú þarft ekki að vera hrædd í húsinu mínu. Þetta er gott hús.
 - Ég er samt hrædd, ég get ekki sofið hérna. Bryndís vissi ekki sitt rjúkandi ráð. Það eina sem hún kunni var einmitt ráðið sem hún hafði notað við hana sem litla telpu.
 - Viltu sofa inni hjá mér?
 Viktoría kinkaði kolli.
 - Ég held það.
 Bryndís hló.
 - Þá verður þú að deila með mér rúmi, að vísu stóru, ásamt hundinum og kettinum. Þau vilja alltaf sofa í rúminu mínu og mér er alveg sama. Ég ofdekra víst þessar skepnur mínar.
 Viktoría brosti.
 - Mér líkar vel við dýr.
 - Komdu þá með sængina þína.
 Stuttu seinna var Viktoría búin að hringa sig niður í rúmið hennar Bryndísar með köttinn Míru í fanginu. Hún var sofnuð áður en Bryndísi vannst tími til að bjóða góða nótt. Bryndís gekk um gólf. Viktoría var falleg þar sem hún lá á koddanum. Það var ótrúlegt að hugsa til þess að nokkur vildi gera þessu barni mein. Hún var svo saklaus í svefninum. Það var hræðilega grimmt og miskunnarlaust að ráðast á hana. Það gat ekki verið Jón. Það gat bara ekki verið að hann hefði lifað í felum öll þessi ár. Hún vildi ekki trúa því. Það var líka of sárt til þess að geta verið satt. Og jafnvel þó að svo hefði verið þá vildi hún ekki trúa því að hann réðist að Viktoríu. Ekki sá Jón sem hún þekkti, en hann hafði víst horfið burt áður en hann dó og einhver annar komið í staðinn. Skrímsli sem hún vildi ekki hugsa um.
 Bryndís gekk út að glugganum og leit út. Henni brá. Það var komin iðulaus stórhríð. Íslenskt vetrarveður. Venjulega hræddist hún ekki hríðar, en nú fylltist hún kvíða. Það leit ekki út fyrir að neinn færi frá Hömrum næsta dag. Hún þekkti veðrin þarna betur en svo. Hún gat setið uppi með gestina marga daga. Það var skelfileg tilhugsun.

Hann starði út í hríðina og nuddaði ánægjulega saman höndunum. Loksins. Loksins var hann kominn vestur aftur. Það hafði verið svo auðvelt. Veðrið gladdi hann. Þau voru nú eins og dýr í gildru. Enginn kæmist frá Hömrum og hann gat leikið leik sinn að vild. Hann þekkti veðurfarið og vissi að nú var hann óhultur. Hann gat tekið þau eitt og eitt. Losað sig við þau á snyrtilegan hátt. Síðan færi hann burt og enginn gæti stöðvað hann.
 Það hafði að vísu ekki verið ætlunin að svo margir yrðu á Hömrum er hann kæmi þangað. Hann hafði hugsað sér að hitta Bryndísi eina. Það hafði komið blóðinu til að ólga verulega í æðum hans. En forlögin voru honum hliðholl. Án þess að hann hefði fyrir því höfðu málin æxlast þannig að nú stóð hann þarna eins og konungur í ríki sínu og réð yfir mannslífum. Spurningin var einungis hvert þeirra hann tæki fyrst. Hann brosti skelmislega. Hann gat látið tilviljun ráða. Nei, það var ekki nógu gott. Hann langaði virkilega til að setja á svið óhugnanlegan harmleik. Langaði til að skjóta þeim verulega skelk í bringu áður en yfir lyki. Hann vissi hvað hann ætlaði að gera. Hann varð að hefjast handa, strax í nótt.

(s. 84-86)