Ég heiti Blíðfinnur en þú mátt kalla mig Bóbó

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1998
Flokkur: 

Úr Ég heiti Blíðfinnur en þú mátt kalla mig Bóbó:

Sólin sendi nú fyrstu geislana gegnum skóginn og döggin steig upp af rökum sverðinum. Blíðfinnur pírði tindrandi augun undir gleraugunum og leit upp í stóru eikina til að huga að íbúa hennar. Eikin var þögul og mikilúðleg í morgunþokunni. Spekingurinn var greinilega ekki vaknaður. Hann hafði legið á viskugreininni langt fram eftir nóttu, hlustað, horft og hugsað sitt. Blíðfinnur sá hann út um gluggann sinn þegar hann fór að sofa, eins og dularfulla skuggaveru þar sem hann bar við kvöldroðann á himninum.
Aftur fékk Blíðfinnur þessa undarlegu tilfinningu. Að eitthvað væri öðruvísi í dag en aðra daga. Hann vissi bara ekki hvað. Það var eins og flugurnar hefðu um eitthvað nýtt að suða þar sem þær heilsuðust við nefið á honum. Það lá líka einhver ný lykt í loftinu og skyndilega flugu gargandi svefnpurkur upp handan við húsið. Eitthvað hafði hrætt þær úr fylgsnum sínum. Voru hér óboðnir gestir á sveimi?
 Það varð víst ekki hjá því komist að kanna þetta betur.
 Hjartað hamaðist í brjósti Blíðfinns þegar hann laumaðist hikandi fyrir hornið og kíkti inn í bakgarðinn.
Þarna sat eitthvað og horfði á hann í morgunsólinni. Eitthvað sem hann hafði aldrei séð áður en samt einhvern veginn svo kunnuglegt. Með höfuð og hendur og fætur eins og hann. Bara svolítið öðruvísi. Og það horfði á Blíðfinn skelfing ... blíðlega. Já, það var eiginlega mjög hlýlegt, þetta augnaráð. Og sakleysislegt. Brosandi, fallegt andlit. Og nú hló það. Blíðfinnur gat ekki annað en hlegið líka og fært sig nær. Þetta var skemmtilegt. Hann vissi ekki hvað þetta var en hann vissi að það hlaut að vera gott.
Góðan daginn, sagði hann og vinkaði þar sem hann stóð álengdar af því að honum datt ekkert betra í hug. Litla veran brosti sínu blíðasta og reri fram og aftur þar sem hún sat í grasinu. Ég heiti Blíðfinnur, sagði hann og færði sig örlítið nær. Bóbó, sagði veran og skríkti af ánægju um leið og hún benti á Blíðfinn. Nei, Blíðfinnur, sagði Blíðfinnur eins skýrt og hann mögulega gat. Bóbó, sagði veran undurmjúklega og teygði báðar hendur í átt til Blíðfinns. Og Blíðfinnur horfði djúpt inn í þessi tæru augu. Þú mátt alveg kalla mig Bóbó, sagði Blíðfinnur og faðmaði veruna að sér.

(s. 10 - 11)