Ég veit þú kemur: Þjóðhátíð í Eyjum 2002

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2002
Flokkur: 

Úr Ég veit þú kemur: Þjóðhátíð í Eyjum 2002

Inni í Dalnum er hreinasta veðravíti. Hvinurinn eykst sífellt eftir því sem ég nálgast hann. Við veginn liggja undarlegir hlutir sem ef til vill eiga að fá mig til að snúa við. Fyrst geng ég fram á sóðalegan smokk og síðan útlim, líkast til af einhvers konar dýri. Mikil mildi að hafa samt ekki fundið útliminn inni í smokknum. Þá hefði ég að minnsta kosti tafist. Ég er ekki sú eina á ferð því fyrir aftan mig eru þrír strákar. Allt í einu hnippir einn þeirra í vini sína. Sjáiði! Við lítum til himins þar sem appelsínugult Tal-tjald velkist um í vindunum undir Molda. Eins og ósýnileg ófreskja hafi klófest það til að leika sér að því, henda því upp í loftið og vinda það í krumlum sér. Kannski er þetta tjaldið mitt. Og ef svo er verð ég að viðurkenna að ég er fegin að vera ekki inni í því núna.

Enginn biður mig um að sýna aðgönguarmbandið við innganginn. Dyraverðirnir flúnir. Strákarnir þrír flýta sér á undan mér inn á svæðið og við hlið mér birtist nú kona sem spyr um dauðagámana. Hún þurfi að sækja son sinn þangað. Ég tel mig nú aldeilis vita hvar gámarnir séu og tek að mér að fylgja henni. Sonurinn er 18 ára gamall og bróðir hans kom honum í gáminn í nótt. Það er best að koma honum heim og láta hann sofa úr sér þar. Betra að vita hvar hann er, segir konan réttilega. Ég bendi henni á gáminn en hætti mér ekki nær.

 Á miðju tjaldstæðinu hefur myndast tjörn og ofan í henni fljóta nokkur tjöld, fernur, plastpokar, dýna og dósir. Fjöldi tjalda hefur verið tekinn niður og fæst þeirra sem eftir eru standa uppi. Þau virðast hafa verið keypt ódýr, kannski svo ekki tæki því að fara með þau aftur í bæinn. Tími vandaðra fermingartjalda, sem álitin voru ævieign, er liðinn.
Einstaka maður sést bogra inni í tjaldrústum við að reyna að bjarga víni og öðrum verðmætum. Ómögulegt samt að átta sig á því hvort fólk er að gramsa í réttum eigum. Tjald húsvísku stelpnanna tveggja, sem borðuðu saman pizzu í stað þess að fara á Húkkaraballið, liggur ofan í stórum polli. Vonandi eru þær komnar á stað þar sem hlýir sokkar vaxa á trjánum og kjötsúpan drýpur af hverju strái.

 Þetta er dagurinn sem vestmannaeyskar frúr eru vanar að mæta í Dalinn í upphlut til að hella upp á kaffi og skemmta sér með fjölskyldunni. Í hvítu tjöldunum er hins vegar ekki nokkurn mann að sjá fyrir utan einn heimamann sem hleypur við fót með gítarinn sinn og síðan auðvitað fjöruga unglingahópinn sem gert hefur sig heimakominn í ysta tjaldinu.
 Vindurinn sviptir frá tjalddyrunum þegar ég geng hjá og ekki er að sjá að fylleríið sé að fjara út. Tjöldin eru forug, pollar í gólfdúkunum og inni í þeim sem skilin hafa verið eftir opin hefur rokið leikið lausum hala. Eitt tjaldið hefur fokið í burtu og eftir stendur grindin. Borð, bekkir og stólar blasa við eins og í dúkkuhúsi fyrir tröllakrakka.
 Þó að svæðið hafi svo að segja verið yfirgefið eru gossalan og sjoppan opnar. Þetta er í eina skiptið sem ég hef komist upp að þeim fyrir mannþröng, enda er veltan alls 2,5 milljónir úr sjoppunni einni.

Það er bara opið, segi ég mannalega við strákana í gossölunni og því næst storma ég að sjoppunni til að segja eitthvað álíka gáfulegt.

(s. 129-131)