Eins og vax

Eins og vax
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2002
Flokkur: 

Úr Eins og vax

Smátt spurt og fátt um svör En nú eigum við svo sem fullt af orðum: Saga, sögn, frásögn, frásaga, pistill, rella, rolla, frolla... Orð, orð, orð. Já allir eiga orð og það er ekkert sérstakt fyrir íslensku, það er allt löðrandi af þessu í öðrum málum: fabula, conte, Erzählung, berättelse, fortælling, skröna, skrøne, narrative og hver veit hvað á fjarlægari tungum, en ekkert af þessu er talið dekka hina raunverulegu list-smásögu, Kunst-Novelle svo ég bregði fyrir mig þýskufætinum. En hvað einkennir hana? Æ það er svo margt. En til að gera lífið einfalt er best að hafa það tvöfalt: Allt er tvennt og á öllum sviðum stendur valið alltaf um eitthvað tvennt. Þú sérð þetta alstaðar: Ertu hundamaður eða kattamaður? Hvort ertu fyrir Laxness eða Þórberg, Bítlana eða Rolling Stones, kók eða pepsí, Saab eða Volvo? Hvort aðhyllistu Byko eða Húsasmiðjuna? Brú eða Staðarskála ...? Og þannig mætti lengi telja. Í list-smásögunni stendur valið líka um tvennt: Maupassant eða Tsjekov. Ég skal bara rétt tæpa á þessu, ég sé að þú ert tímabundin: Annars vegar bygging, flétta, stígandi, hápunktur, lausn, helst fullkomlega óvænt en samt alveg rökrétt, klár endalok. Hins vegar lýsing, stemmning, hugleiðing, mynd, andrúmsloft, endir sem um leið er ef til vill fyrst og fremst upphaf. Jafnvel endaleysa. Runnið markvisst út í sandinn.

(s. 14-15)