Engill meðal áhorfenda

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1992
Flokkur: 

Úr Engli meðal áhorfenda:

Flöskuskeytið

Sviðið er lítil sandströnd, umgyrt lágum klettum og sjá áhorfendur inn yfir ströndina eins og utan af hafi. Sandurinn nær út að sviðsbrún en áhorfendurnir leika sjóinn. Flöskur liggja á víð og dreif í sandinum. Tvær kornungar stúlkur koma niður klettana og hlaupa berfættar í sólvermdum sandinum. Þær koma auga á flöskubreiðu sem liggur glitrandi í flæðarmálinu.
 Flestar eru flöskurnar í djúpgrænum lit, einstaka dökkbrúnar eru innan um en allar gefa þær frá sér sama tæra hljóðið þar sem þær kyssast, hringla og smella í fjöruborðinu svo stúlkurnar gleyma sér við það eitt að þegja og hlusta og horfa. Sólargeislarnir kastast af ávölum formunum hingað og þangað en sækja þó flestir í augu stúlknanna sem standa í sandinum og geta ekki annað og þær fá ofbirtu í augun. En svo fer rammi forvitninnar að þrengja að þessari glitrandi symfóníu og þeim og þær hætta að geta séð nokkuð annað en það sem þær geta ekki séð nema með því að opna flöskurnar; sjálf skilaboðin.
 Þeim gengur illa að ná töppunum úr flöskunum. Raunar ná þær þeim ekki úr neinni þeirra, sama hvernig þær reyna. Þær standa lengi og bisa hvor við sína flöskuna uns þær hætta því skyndilega, horfast í augu eitt andartak og slá síðan stútnum þeirra saman svo þeir brotna af. Þær geta ekki leynt vonbrigðum sínum þegar þær komast að því að flöskurnar eru tómar. Þannig er það að minnsta kosti í leikritinu, en því lýkur með þeim táknræna hætti að þegar þær hafa brotið allar flöskurnar í vonlausri leit að skilaboðum eru þær orðnar svo gamlar að þær komast ekki upp klettana og heim til sín og geta ekki gengið í sjóinn, sem þær þó fegnar vilja láta taka sig, nema ösla fyrst yfir glerhaf sem girðir þær frá því hafi sem áhorfendur leika og það reyna þær en hníga örendar niður, umluktar eldrauðum geislum kvöldsólarinnar sem sundrast í þúsund sinnum þúsund glerbrotum allt í kring um þær. Þannig endar leikritið og áhorfendur eru skildir eftir með alls kyns spurningar á vörunum um vísanir og meiningar sem þeir fá ekki svar við nema brjóta sín eigin flöskuskeyti, hver svo sem þau nú eru.
 Í raunveruleikanum hins vegar, þ.e.a.s. í sögunni sem var forsaga verksins, gerist það, þegar þær hafa brotið fyrstu tvær flöskurnar, að þær finna í þeim skilaboð frá prinsum í fjarlægum löndum sem bjóða þeim báðum að gista. Og það gerðu þær eftir því sem best er vitað.

(s. 24-25)