Enn er annríkt í Glaumbæ

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Akureyri
Ár: 
1984
Flokkur: 

Úr Enn er annríkt í Glaumbæ:

Stuttu síðar stendur Glaumbæjarherliðið úti á tröppum í blárri morgunkyrrðinni og andar að sér tæru loftinu. Það er dálítið svalt í forsælunni, en einkar gott að soga að sér þetta ferska, ósýnilega efni jafnvel betra en drekka kók. Þó stendur það fyrir sínu. Við erum öll fremur ósjálega klædd. Það er nú einu sinni þannig, að þegar á að mála, er ekki farið í sparigallann. Þá grafa menn upp útþvældar flíkur, sem einhverra hluta vegna hafa sloppið við ruslatunnuna. Til dæmis eru stelpurnar í trosnuðum peysum eða skyrtum af pabba. Mamma er í götóttum regnstakk og ég í gamalli úlpu af Sædísi. Pabbi er enn einu sinni kominn í „einkennisbúninginn“, en svo nefnir mamma bláu úlpuna. Þetta hlýtur að verða hennar síðasta ferð. Við líkjumst því fremur trúðum en venjulegu fólki. Það gerir ekkert til. Við ætlum að vinna „þjóðþrifaverk“, segir pabbi, hvað svo sem það merkir. Það er örugglega eitthvað gott. Að mála hús, er að gera þau fallegri en þau voru áður. – Þau eru eins og kvenfólkið. Þurfa málningu við og við, segir pabbi ertnislega við mömmu. Hún bara brosir. Pabba tekst sjaldan að koma henni úr jafnvægi. Já, eftir tvo, þrjá daga, getur enginn talað lengur um ryðguðu fjárhúsin í Glaumbæ, Bjargi er líklega réttara að segja. Mamma og stelpurnar hafa sett upp bleika gúmmíhanska, ég græna fingaravettlinga en pabbi er berhentur.

(s. 14)