Enn er morgunn

Útgefandi: 
Staður: 
Akranes
Ár: 
2009
Flokkur: 
Af bókarkápu:

Haustið 1936 kemur til Reykjavíkur ungur þýskur tónlistarmaður að nafni Jóhannes Kohlhaas. Hann er af gyðingaættum og hefur hrökklast undan nasistum, sem fara mikinn í heimalandi hans. Menningarlíf hins unga höfuðstaðar nýtur hæfileika hans um hríð, hann „aðlagast“ eins og það heitir nú á dögum, finnur meira að segja ástina og kvænist – stúlku af einni fínustu og áhrifamestu ætt landsins, Önnu Láru Knudsen.

Úr Enn er morgunn:

Reykjavík í byrjun tuttugustu aldar hegðaði sér líkt og nývaknaður köttur sem teygir fyrst framhlutann og síðan afturendann. Hún teygði sig fyrst yfir lækinn og upp í Þingholtin og síðan meðfram Tjörninni og vestur á Mela, túnskæklunum frá gömlu hjáleigunum var skipt upp í lóðir, Gvendarkot, Landakot, Melkot og Brekkubær hurfu smátt og smátt og fengu önnur og tilkomumeiri nöfn, Tjarnargata, Túngata, Laufásvegur, og kofaþyrpingin frá dögum Innréttinganna týndist smátt og smátt milli nýrra og hærri húsa úr timbri og bárujárni. Einstöku hús úr steinsteypu skaut upp kollinum og síðustu torfbæirnir voru jafnaðir við jörðu. Við Tjörnina og í Þingholtunum bjuggu kaupmenn og embættismenn, fjær bjuggu fiskimenn og aðrir erfiðismenn.
Hilmar Knudsen verslunareigandi og bæjarstjórnarfulltrúi bjó við Tjörnina með sinni dansglöðu eiginkonu, Emilíu, ásamt stjúpdótturinni og sonunum þremur. Anna Lára var þremur árum eldri en Theódór, hálfbróðir hennar, og lærði snemma að gæta hans, hætturnar voru nógar þótt ekki væri umferðin. Á sumrum léku þau sér á Tjarnarbakkanum við að fleyta skipum og hún gætti þess að hann færi sér ekki að voða, á haustin gætti hún þess að hann færi ekki út á Tjarnarísinn fyrr en hann var örugglega mannheldur. Nú veit enginn hvernig Lars Sørensen leit út, af honum er ekki til nein mynd, en á mynd frá 1920 má skoða dóttur hans og alla Knudsensfamilíuna, Hilmar Knudsen er nokkuð feitlaginn með þunnt hár og mikla barta, góðlegur á svip með bros í augnakrókum í svörtum jakkfötum og með föðurmorðingja um hálsinn, hann heldur á svörtum hatti í hægri hendi.

(s. 37-38)