Er allt að verða vitlaust?

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1993
Flokkur: 

Unglingabók.

Úr Er allt að verða vitlaust?:

Flóki var að huga að Unni Sif. Hann fylgdist alltaf með henni í frímínútum til að hjálpa henni ef einhver skyldi taka í hana.
 Hún var ekki í kastalanum þar sem sex ára krakkarnir léku sér oftast. Hann rölti fram fyrir skólann. Það var best að fara hringinn og vita hvort hann sæi hana ekki.
 Á bílastæðinu var enginn sjáanlegur. Flóki tók stefnuna á róluvöllinn en komst ekki nema tvö skref, þá var hann skyndilega gripinn hálstaki og keyrður niður.
 - Jæja, helvítis auminginn þinn, nú skaltu fá borgað fyrir tuddaskapinn í gær, hreytti Nóri út úr sér.
 - Leggstu niður, já leggstu niður, þú átt að hreinsa skóna okkar, sagði Día.
 Flóki lagðist endilangur á grúfu í blauta mölina. Nóri hélt honum í skrúfstykki og hann fann að ekki þýddi að reyna að komast undan.
 Vonandi kemur einhver og hjálpar mér, hugsaði hann örvæntingafullur.
 - Já, svona maður, hreinsaður skóna mína, þrumaði Nóri.
 Hann sleppti takinu á Flóka og beygði sig niður að honum. Flóki reyndi að rísa upp en Nóri lamdi hann í bakið.
 - Ég lem þig í klessu ef þú hreyfir þig. Sérðu ekki hvað skórnir eru drullugir? Þurrkaðu af þeim!
 Flóki teygði fram hægri höndina og nuddaði skóna. Hann reyndi að nudda laust til að óhreinka ekki nýja vettlinginn frá Salvöru.
 - Já, hvaða djöfulsins aumingi ertu, geturðu ekki gert þetta almennilega, sagði Nóri og steytti hnefann að honum.
 - Svona, nuddaðu maður!
 Flóki sá höndina á honum útundan sér. Fingurnir voru langir og grannir og á löngutöng var krans af vörtum rétt ofan við nöglina. Þær dönsuðu fyrir augunum á honum. Hann klemmdi aftur augun og nuddaði sem mest hann mátti, fyrst annan skóinn, svo hinn.
 - Næst er það Snorri. Nóri færði sig til hliðar og býfurnar á Snorra birtust fyrir framan nefið á Flóka.
 - Þú verður að nota hinn vettlinginn, þessi er orðinn drullugur, urraði Snorri.
 Titrandi af reiði og auðmýkingu dró Flóki vinstri vettlinginn af sér og byrjaði að nudda.
 - Sko kvikindið, það er furða hvað þetta getur! sagði Nóri. Hann beygði sig niður til að glotta faman í Flóka og aftur stigu vörturnar dans á löngutönginni.

(s. 28-29)