Fagur er dalur

Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1966
Flokkur: 

Úr Fagur er dalur:

Myndspá

Það er tunglskin.
Nóttin er heit í hjarta þínu,
vatnið tært í augum þínum.
Og það er logn.

Tunglið glampar
í vatnsborðinu,
teygir hvíta hönd
að hamrinum.

Í læstri kistu
liggur þar fjársjóðurinn,
hver á silfrið og perlurnar
í hjarta þínu.

Þegar þú brosir
finnst mér veggurinn opnast
og ég mega ganga í sjóðinn,
þrá þína, drauma.

En þá er eins og kuli
í augum þínum,
nóttin sem var ljósstöfuð
leggst að lokuðum hamri.

Ég finn kulið í myrkrinu,
það ýfir hár þitt
og gárar vatnskalda þögnina
á millum okkar.

Og nú er ekkert tunglskin lengur
– andlit þitt horfið,
horfið í svarta móðu –
andlit þitt.

(s. 84 - 85)