Fjársjóðurinn í Útsölum

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1992
Flokkur: 

Myndir: Hlín Gunnarsdóttir.

Úr Fjársjóðnum í Útsölum:

Það er gaman að eiga heima í Útsölum, landinu við hafið.
 Vorin eru þar björt og blá og sólin skín daga og nætur. Á vetrum fyllir myrkrið hvern krók og kima nema þegar tunglið er fullt og kyssir spegilmynd sína í haffletinum. Þá slær undarlegum bláum bjarma yfir og sumir segja að álfar, huldufólk og aðrar duldar vættir fari á stjá.
 Þegar dimmast er sér Björt ekki húsið þar sem Huldar á heima, þó að það sé hinum megin við Bjarmastíginn.
 - Amma, amma, húsið hans Huldars er farið, sagði hún einu sinni og hágrét. Þá var hún bara fimm ára.
 Amma sat í hjólastólnum sínum úti við gluggann. Hún hló og teygði sig í lampann og slökkti í herberginu.
 - Sjáðu bara, sagði hún og benti.
 Þá sá Björt ljósið í litlu gluggunum heima hjá Huldari og hætti að gráta.
 Björt og Huldar hafa verið vinir frá því að þau voru smákríli. Þau muna ekki sjálf hvenær vinskapurinn hófst en Hrannar bróðir Huldars hefur oft sagt þeim frá því. Það er eftirlætissagan þeirra.
 - Það var þannig að Björt var ein í garðinum sínum. Hún sat undir heggnum og veiddi snjókorn og talaði við sjálfa sig. Trén voru fannhvít og greinarnar svignuðu undan snjóþunganum. Við Veigar vorum að passa Huldar og við ætluðum einmitt að fara að renna okkur niður Bjarmastíginn á pappaspjaldi. Þá heyrðist mikill dynkur og snjórinn hrundi af stærstu greinunum á heggnum. Hann hrundi yfir Björtu og hún hvarf. Huldar benti inn í garðinn og sagði: „Stelpa farin!“ En við vissum að hætta var á ferðum og drógum hann með okkur inn í garð og grófum Björtu upp úr skaflinum. Huldar sat hjá og borðaði snjó á meðan. Björt skældi og skældi en Huldar brosti til hennar. „Allt búið“, sagði hann og bauð henni snjó. Svo kom mamma hennar út og huggaði hana. Hún þakkaði okkur fyrir að hjálpa Björtu. Svo fékk hún mér stórt prik og ég sló í öll trén svo að snjórinn hrundi niður úr þeim með miklu pommsara pommsi. Þá hlóguð þið.
 Á eftir bjuggum við Veigar til snjóhús handa ykkur af því að það var svo mikill snjór í garðinum. Húsið var kúlulaga og okkur fannst það lítið en ykkur fannst það stórt.
 Þegar húsið var tilbúið þorðuð þið ekki inn af því að það var svo dimmt. Þá gaf mamma Bjartar ykkur kerti til að lýsa það upp. Svo varð ykkur kalt og þá fór ég heim og sótti kakó handa ykkur.
 - Og síðan höfum við verið vinir, segir Björt.

(s. 7-8)