Fjarveran

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2012
Flokkur: 

Um bókina

Ég hélt ég hefði sofnað í stofunni, hugsar Ármann þegar hann rís upp í rúminu inni í svefnherbergi. Hann hafði verið að vinna fram eftir kvöldi, eins og hann hefur gert siðustu daga, af meiri áhuga en hann á jafnan að venjast. Því það sem hann er að lesa þessa dagana er skáldsaga eftir höfund á fimmtugsaldri, saga um mann á hans eigin aldri, prófarkalesara sem með því að forðast flest samskipti við fólk hefur mun meira af því að segja en ella. Fyrirfram hefði Ármann ekki búist við að honum þætti slík persóna áhugaverð.

Úr Fjarverunni

Á horni Laugavegar og Rauðarárstígs, norðausturhorninu, var lengi söluturn sem Ármanni Val verður hugsað til í hvert skipti sem hann gengur heim til sín úr þessari átt. Hann var vanur að kaupa sér tóbak í þeirri sjoppu, á þeim árum þegar hann reykti, og tilhugsunin um lyktina innandyra – sælgætis-, tóbaks- og pylsulyktina – dregur hann í hvert skipti sem hann á leið um götuhornið inn í heim hinnar horfnu búllu. (Það var orðið sem hann notaði yfir þann rekstur.) Inn í heim söluturnsins. Sjoppunnar. Upplýsingamiðstöðvarinnar em þessi sjoppa hafði verið. Því það var meðal annars þar sem Ármann las fyrst – og heyrði (því eigandi sjoppunnar var alltaf búinn að lesa blöðin á undan þeim sem keyptu þau af honum) – um hvarf Geirfinns Einarssonar. Geirfinns sem hið fræga Geirfinnsmál er nefnt eftir, þetta mál sem á svo einkennilegan hátt átti eftir að fylla út í eitt hólfið í huga Ármanns; og á eftir að gera, eins lengi og heili hans starfar, rétt eins og upplýsingar sem komið er fyrir í rammgerðu bankahólfi, og lykillinn að bankahólfinu týnist eða eigandi þess týnist, og upplýsingarnar halda áfram að geymast í hólfinu, allt þar til sjálfum bankanum er lokað.

Núna er á þessu horni Laugavegar og Rauðarárstígs rakarastofa, þar sem auglýst er í hornglugganum – svo stórum stöfum að ekki er ólíklegt að þeir sjáist frá strætisvagnabiðstöðinni á Hlemmi – að klippingin kosti 1900 krónur. Hinum megin Laugavegarins og Rauðarárstígsins er banki – þar hefur verið banki til fjölda ára, og á eftir að verða í allmörg ár til viðbótar þótt hann muni breyta um nafn oftar en einu sinni. Þetta er bankinn sem dóttir Ármanns, Ester, vann í nokkur ár að loknu háskólanámi, og síðan aftur, nokkrum árum síðar (og þar sem hún vinnur enn); hún átti það til að kíkja til föður síns í hádeginu – í hádegismatnum – þótt honum, Ármanni, og ekki síður henni, Ester, hafi aldrei þótt þeir hálftímar mjög ánægjulegar stundir. Enda var samband þeirra ekki sérlega gott á þeim tíma. Það var ekki fyrr en seinna sem hægt var að kalla það samband eðlilegt, eða afslappað; og þannig hélst það um nokkurra ára skeið, allt þar til fyrir átta mánuðum að eitthvað gerðist í heimsókn Esterar á Rauðarárstíginn einn daginn þegar Markús Geirharður var staddur hjá Ármanni; eitthvað sem varð til þess að Ester ákvað að hætta að tala við föður sinn.

(31-2)