Fjórða hæðin

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1993
Flokkur: 

Úr Fjórðu hæðinni:

„ÉG VEIT EKKI hvað gerðist,“ sagði mamma. „Allt í einu voruð þið orðnir perluvinir. Þið komuð saman niður einn morguninn og heimtuðuð hafragraut.“ Hún brosti til mín. „Heimir ætlaði sjálfsagt að koma yfir til okkar um nóttina eins og hann var vanur en hefur villst upp í rúmið hjá þér. það var nú meira ferðalagið á þér á nóttunni. Ég var alltaf dauðhrædd um að þú færir þér að voða. En þú,“ sagði hún og leit á Jóhann Svavar, „þú breyttist á einni nóttu, til allrar hamingju fyrir leirtauið mitt.“
Jóhann Svavar þagði og horfði á mig. Ég sá hvað hann hafði í huga og gaf honum ekki færi á að hefna sín.
„Á nú að fara að rifja þetta upp einu sinni enn? Hvað get ég gert að því þó að ég hafi gengið í svefni þegar ég var lítill? Ég er farinn ef þið ætlið að byrja á einhverjum svefngöngusögum,“ sagði ég og gerði mig líklegan til að standa upp.
„Svona, sittu kyrr,“ sagði mamma. „Fyrr mátti nú vera! En það er ekkert skrýtið að ég tali um þetta. er það nokkur furða ... núna þegar ég er að missa ykkur báða í burtu. Það verður tómlegt hérna þegar þið eruð farnir. Og ekki veit ég hvað ég sé mikið af pabba ykkar. Ég tala nú ekki um ef hann ætlar að halda áfram þessum endalausa þeytingi út og suður eins og þetta hefur verið í sumar.“

*

Ég villtist of í ranghölum draumanna og yfirgaf þá stundum rúmið mitt – og rataði síðan ekki til baka. Á þessu svefnrölti mínu lagði ég mig á ólíklegustu stöðum og breyddi yfir mig það sem hendi var næst. Eina nóttina vaknaði ég í baðkarinu með handklæði yfir mér. Í annað sinn á eldhúsborðinu undir viskastykki. Eitt sinn vaknaði ég hríðskjálfandi á gólfinu í forstofunni með gúmmímottuna á bringunni. Það var sú saga sem ég fékk undantekningalaust að heyra ef svefngöngur mínar bárust í tal. Oftar en ekki fann ég mér þó rúm til að leggjast í og nótt og nótt rumskaði Jóhann Svavar við það að ég brölti upp í dívaninn til hans. Hann hló sig máttlausan á morgnana því ég varð alltaf jafn undrandi þegar ég vaknaði.
Fyrstu nóttina eftir að pabbi og mamma fluttu niður gekk ég í svefni í síðasta sinn. Það var líka um haust, haustið þegar við byrjuðum í gagnfræðaskólanum.

(s. 56-57)