Fjötrar

fjötrar
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2019
Flokkur: 

Um bókina

Fjötrar segir frá konu sem finnst látin í klefa sínum í fangelsinu á Hólmsheiði. Guðgeir og félagar hans rannsaka málið sem reynist hafa ótal þræði og teygja anga sína víða, alla leið til stóra skjálftans um aldamótin þar sem ungur maður hvarf sporlaust.

Lögreglan stendur frammi fyrir stórum spurningum og kynnist hversu langt fólk er tilbúið að ganga til að viðhalda ákveðinni mynd af sér út á við og hvers fjölskyldur eru megnugar til að vernda leyndarmál sín.

Úr bókinni

Guðgeir stækkaði grófkorna myndina sem fylgdi fréttinni. Hún var af Jóhannesi. Sama mynd og hann hafði séð heima hjá nýja nágrannanum, Andreu. Ungur dökkhærður maður, áberandi fríður með óræðan svip og augu sem horfðu eitthvað út í fjarskann. Var þetta svipur manns sem ætlaður var takmarkaður tími hér á jörð? Um það var ómögulegt að segja því að fólk bar víst ekki örlög sín utan á sér. Hann hélt áfram að leita en fann ekki fleiri myndir. Öðru máli gegndi um bróðurinn Daða. Það fór ekki á milli mála að hann lifði viðburðaríku lífi, að minnsta kosti á netinu. Það grillti í hann í stórum hópi fjallahjólreiðafólks með himinblámann sem bakgrunn, á næstu var hann sólbrúnn með vinum á skíðum, svo skælbrosandi í vöðlum krjúpandi á annað hné með vænan lax og að lokum uppábúinn í vel sniðnum jakkafötum að taka á móti jafnréttisviðurkenningu fyrir hönd Mosfells-verktaka. Andlitseinkennin þau sömu og Guðgeir hafði séð á teikningum Kristínar Kjarr í fangaklefa númer tíu. Hann fletti hratt í gegnum myndirnar sem hann hafði tekið í fangaklefanum en fann enga nógu góða mynd af teikningunni og sendi Leifi á tæknideildinni boð. Á meðan hann beið óþreyjufullur eftir svari skoðaði hann myndirnar af Daða aftur. Eðlilega hafði hann elst, virtist grennri en hann var sem unglingur en í góðu líkamlegu formi. Ögn tekinn í andliti og fíngerðar hrukkur voru komnar í kringum munn og augu. Hann smellti á hverja myndina á fætur annarri. Teikningin, eins og hann mundi hana, var sláandi lík Daða. Kristín hlaut að hafa haft hann í huga en hvar og hvenær höfðu leiðir þeirra legið saman?

(s. 39)