Flekklaus

flekklaus
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2015
Flokkur: 

Um bókina

Á miðjum níunda áratugnum ferst ung kona þegar eldur kemur upp í virðulegu fyrirtæki í Reykjavík. Vitni sér tvö ungmenni forða sér á hlaupum en málið er aldrei upplýst.

Áratugum síðar fer lögreglumaðurinn Guðgeir til Svíþjóðar sér til heilsubótar eftir erfið veikindi. Dvöl hans í sveitasælunni í Smálöndum á eftir að hafa afdrifaríkar afleiðingar. Hvaða tengsl hefur sænskur gestgjafi hans við þetta gamla íslenska sakamál?

Úr bókinni

Á laugardagsmorgninum var Guðgeir búinn að vera lengi á fótum þegar hann lokaði útidyrunum rétt fyrir klukkan átta og gekk upp götuna. Enginn var á ferli nema miðaldra maður sem bar út blöð. Þeir kinkuðu kolli hvor til annars. Leiðin að bakaríinu var stutt en Guðgeir þurfti samt sem áður að bíða eftir að opnað yrði fyrir fyrsta viðskiptavin dagsins. Ilmurinn af nýbökuðu brauði og bakkelsi hafði þau áhrif að hann gekk til baka með fullan poka. Þegar heim var komið útbjó hann eins snotran morgunverðarbakka og hann frekast kunni. Fór meira að segja út í garð með skæri, klippti síðasta blómið af fjallarósinni og setti í vatnsglas. Á lítinn miða sem hann lagði við hlið þess skrifaði hann að hann þyrfti rétt að skreppa en að Inga mætti búast við honum aftur upp úr hádegi. Hann ætlaði að teikna eitthvað á blaðið, svona eins og broskall, blóm eða hjarta. Byrjaði að krota en krassaði yfir það. Kunni ekki á svoleiðis og fannst það væmið, auk þess sem það minnti of mikið á krúsidúllurnar sem Kirsten hafði teiknað á bréfið sem fylgdi Jonasi. Guðgeir fékk hroll við tilhugsunina.
   Inga rumskaði ekki þegar hann lagði bakkann á náttborðið við hlið hennar. Hárið var í flóka og hún svaf samanhnipruð eins og svo oft áður.
   - Fallega, yndislega konan mín, hvíslaði hann og beygði sig niður að henni. Snerti hörundið varlega með vísifingri, renndi honum niður hálsinn og að brjóstunum. Hún rumskaði ekki en snertingin smaug í gegnum líkama hans. Hann andvarpaði og reif sig frá henni. Fór í jakkann sinn og var kominn fram í forstofu með bíllyklana þegar Jonas birtist skyndilega við hlið hans og otaði að honum símanum sínum. Guðgeir hopaði ósjálfrátt og beitti svo sjálfan sig hörðu og stóð kyrr. Þörfin fyrir að hlaupa út, burt frá öllu, varð yfirþyrmandi. Í stað þess að hörfa tók hann við síma Jonasar og píndi sig til að horfa á myndina sem fyllti út í skjáinn.

(s. 88-89)