Folda : þrjár skýrslur

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1972
Flokkur: 

Úr Foldu:

Það varð okkar fyrsta verk að vitja þess bóls þar sem handrit Íslands eru geymd; með örum hjartslætti gengum við á þann stað þar sem þeir helgu dómar eru varðveittir.
Á stéttinni viku dúfur undan okkur með kúptum bláum skugga; í sólinni bökuðu tveir karlar sig sitjandi flötum beinum við húsvegginn með ölflösku milli fóta, og hjálpuðu sólinni að verma drykkinn með holdugum lærum sínum og þrútnum höndum, rauðbláir í framan í rifnum fötum. Skál, sagði annar og horfði án eftirvæntingar á okkur fara inn í húsið.
Mætti okkur þá úlfgrár langhöfði með þunglyndislegt háð í svipnum og tilgerðan fjandskap í augunum líkt og til að dylja hlýju, og gera sig kaldan og tómlátan með ræktuðum leik, og beið þess við greindum frá því hvað okkur væri á höndum meðan hann mældi okkur flýtislaust.
Okkur langar til að fá að sjá eitthvð af handritunum íslenzku, sagði Esekíel forsprakki.
Hér er ekkert að sjá. Og ef eitthvað væri þá er það ekki túristaglingur. Guðlaun að hér er ekkert, sagði maðurinn, og andaði fyrstu orðunum frá sér líkt og þau kæmu beint upp úr lungunum og strykjust við hnakkamegin án þess að fara út um nasirnar þó, og svo hneig tónninn þegar lengra dró í setninguna, og var hann þá orðin dragmæltur; og horfði út um gluggann einsog veröldin ætti ekkert lengur að bjóða; kannski væri bezt að leysast upp, og fjúka sáldur út í buskann. 
Úti á gljáandi grasinu hoppuðu feitir svartir starrar sálarlausir á velsnyrtum blettinum; þrjár tómar ölflöskur endurköstuðu sólargeislum upp við hlaðinn húsvegg á stétt; og trjágreinar með fjaðurstrengjóttu laufi bærðust aðeins í spegli gluggans sem var galopinn. Dynkir sporvagns. Raddir án orðaskila.

(s. 105-106)